Helgi Magnússon fjárfestir, og Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hafa báðir notið góðs af uppgangi Marels undanfarið. Markaðsvirði þess fyrirtækis hefur aukist um tæp 300 prósent frá því fjármálakerfið hrundi og krónan með.
Rekstur Marels er traustur og er að styrkjast, en innri vöxtur Marels hefur verið mikill og tækifærin fyrir félagið aukist jafnt og þétt á stærsta markaðssvæðinu, Asíu. Ef Marel fær góðar viðtökur á þeim markaði og tekst að ná góðri fótfestu, eins og margt bendir til raunar, þá getur þetta haft miklar jákvæðar afleiðingar og stækkað fyrirtækið hratt. Tækifærin eru bæði stór og mikil.
Helgi á, eða tengist persónulega, 5.785.044 hlutum í Marel samkvæmt síðustu tilkynningu Kauphallar Íslands. Hún var birt í tilefni af um 75 milljóna kaupum hans á Marel-bréfum nýlega. Miðað við markaðsverðmæti hluta félagsins í dag nemur verðmæti hlutanna tæplega einum milljarði.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna á verðmæta eign í Marel, 6,8 prósent hlut, sem er virði ríflega átta milljarða. Sjóðurinn er þriðji stærsti einstaki hluthafi Marels.
Helgi Magnússon fjárfestir hefur notið góðs af því hversu þétt Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur staðið á bak við Marel. Ekki síst eftir hrun, hefur sjóðurinn ítrekað tekið þátt í hlutafjáraukningum þegar þrengdi að fjármögnun fyrir félagið.
En það sem skiptir mestu máli, og hefur verið einkar gott fyrir Helga Magnússon fjárfesti, er að hann og Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, eru óhjákvæmilega samstíga. Enda sami maðurinn. Það eina sem er svolítið óljóst, er hvort það er Helgi Magnússon fjárfestir eða Helgi Magnússon stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem á sæti í stjórn Marels.
Fastir pennar