Formúla 1

McLaren mætir með uppfærslur til að halda í forystuna

McLaren eru fljótastir í tímatökum en þurfa að halda í forystuna með uppfærslum.
McLaren eru fljótastir í tímatökum en þurfa að halda í forystuna með uppfærslum. nordicphotos/afp
Tæknistjóri McLaren liðsins í Formúlu 1, Paddy Lowe, segir lið sitt stefna á að bæta gengi sitt í kínverska kappakstrinum sem fram fer um helgina.

Tæknisþróunarstríðið stoppar aldrei í Formúlu 1 og McLaren sér sig því knúið til að mæta með uppfærslur á bíl sinn, þó það sé ekki nema til að halda í forystuna.

"Við erum með nokkuð margar uppfærslur fyrir næsta mót," sagði Paddy Lowe. "Uppfærslurnar snerta alla hluta bílsins svo við búumst við nokkuð stórum framfararskrefum."

Hann segist einnig trúa því að keppinautar McLaren liðsins mæti með stórar uppfærslur til Kína. "Þetta er endalaus bardagi um að hafa yfirhöndina, sérstaklega milli efstu liðanna. Nú er hann hafinn og við verðum að spila okkar leik eins vel og við getum."

Það hefur tíðkast að fyrstu stóru uppfærslurnar sem liðin gera á bílum sínum séu kynntar í fyrsta mótinu í Evrópu vegna þess kostnaðar sem fylgir flutningunum milli heimsálfa. Nú eru fyrstu "aflandsmótin", þau sem ekki eru ekin í Evrópu, orðin svo mörg að liðin sjá sig knúin til að uppfæra fyrr en hefð er fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×