Fótbolti

Liðsfélagi Rúriks hjá OB fær 428 milljóna tilboð frá Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Utaka.
Peter Utaka. Mynd/Nordic Photos/Getty
Peter Utaka, liðsfélagi Rúriks Gíslasonar hjá danska félaginu Odense Boldklub er væntanlega að förum frá félaginu enda búinn að fá mjög freistandi tilboð frá Kína. Danskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að OB sé búið búið að samþykkja tilboð kínverska liðsins.

Blaðamaður tipsbladet.dk skrifar að Peter Utaka muni skrifa undir tveggja ára samning við Dalian Aerbin eftir að hafa fengið tilboð sem væri of gott til að hafna. Tilboðið hljómar nefnilega upp á tíu milljónir danskra króna í árslaun sem gerir um 214 milljónir íslenskra króna.

Peter Utaka, sem er 27 ára Nígeríumaður, hefur raðið inn mörkum hjá OB undanfarin tímabil og var markakóngur dönsku úrvalsdeildarinnar 2009-10 með 18 mörk í 33 leikjum. Hann skoraði 14 mörk í 32 leikjum á síðasta tímabili og hefur þegar skorað 8 mörk í 16 leikjum þegar 2011-12 tímabilið er hálfnað.

Kínverska félagið hefur fjársterka aðila á bak við sig og fregnir frá Kína herma að félagið megi eyða 150 milljónum danskra króna í þessum félagsskiptaglugga eða rúmlega 3,2 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×