Sport

Byr blæs í bakið á Jakobi Jóhanni

Jakob Jóhann með Jacky Pellerin og Jóni Finnbogasyni forstjóra Byrs við undirskrift samnings í gær.
Jakob Jóhann með Jacky Pellerin og Jóni Finnbogasyni forstjóra Byrs við undirskrift samnings í gær.

Byr og Jakob Jóhann Sveinsson sundmaður skrifuðu í gær undir samstarfssamning til 18 mánaða en Jakob stefnir að sínum fjórðu ólympíuleikum í London á næsta ári. Jakob æfir hjá Sundfélaginu Ægi í Reykjavík og er bringusund hans aðal keppnisgrein. Hann hefur unnið fjölda móta hérlendis og var meðal annars kosinn sundmaður ársins hjá SSÍ.

Jakob setti sitt fyrsta Íslandsmet í fullorðinsflokki árið 1999. Eftir það varð ekki aftur snúið og hefur hann mætt á hvert stórmótið á fætur öðru fyrir Íslands hönd.

Jakob keppti til að mynda á ólympíuleikunum í Sydney árið 2000, Aþenu árið 2004 og Peking árið 2008. Hann hefur lengst komist í undanúrslit á þremur heimsmeistaramótum og jafn mörgum Evrópumeistaramótum. Þá hefur hann komist tvisvar sinnum í úrslit og fimm sinnum í undanúrslit á Evrópumeistaramóti í 25 m. laug.

Jakob er hæstánægður með samstarfið og segir að það muni hjálpa honum mikið á komandi ári þar sem hann stefnir á sína fjórðu ólympíuleika. „Þetta á eftir að hjálpa mér heilmikið og líka hjálpa mér til að slaka á yfir því hvort ég komist erlendis á sundmót eða ekki vegna fjárskorts" sagði Jakob Jóhann.

Þjálfari Jakobs Jóhanns, Jacky Pellerin, var ánægður með styrkinn og sagði þetta frábæra viðurkenningu og myndi hjálpa Jakobi mikið.

„Jakob á það til að vera svolítið stressaður yfir öllum hlutum og vera að velta sér upp úr þeim, og samstarf við Byr á eftir að hjálpa honum mikið við það að þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur vegna keppnis- og æfingaferða erlendis, og það hjálpar honum að slaka betur á og nýta orkuna sína í keppni og æfingar" sagði Jacky Pellerin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×