Innlent

Snjóamet slegið í höfuðborginni

Snjór hefur nú legið yfir höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess samfleytt frá 26. nóvember. Aldrei áður frá upphafi mælinga hefur snjór verið samfleytt svo lengi á fyrri hluta vetrar, segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Þetta hefur ekki verið sérstaklega mikil snjódýpt, en hann er óvenju þrálátur," segir Trausti. Ekkert bendir til þess að snjórinn fari á næstunni, þó að spáð sé örlítilli hláku um helgina.

Snjórinn hefur ekki verið sérstaklega mikill allt tímabilið, en náði þó 21 sentímetra dýpt á þriðjudag, segir Trausti. Að meðaltali hefur snjórinn verið á bilinu 13 til 14 sentímetra djúpur á tímabilinu. Þó að snjórinn hafi spillt færð hefur hann ekki valdið verulegum vandræðum. Það gerist yfirleitt ekki fyrr en snjórinn nær 28 til 30 sentímetra dýpt, segir Trausti.

Desember hefur verið kaldur, og miðað við mælingar í gær er hann sautjándi kaldasti desembermánuður frá því mælingar hófust, segir Trausti.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×