Innlent

Nær að hreyfa fætur og fingur

Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir
Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir
Vandasöm aðgerð sem Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir, landsliðskona á skíðum, þurfti á að halda í gærmorgun á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló í Noregi þótti heppnast vel. Fanney, sem er 19 ára gömul, slasaðist alvarlega á aðfangadag þegar hún var við æfingar í Geilo í Noregi.

Fyrst eftir slysið var óttast að Fanney hefði lamast fyrir neðan háls, en brot var bæði á öðrum og þriðja hryggjarlið hennar. Eftir aðgerðina í gær var hún hins vegar komin með hreyfigetu í bæði fætur og fingur. „En það er lítið vitað um hvort einhver skaði er varanlegur, það kemur í ljós á næstu tveimur árum," segir Gísli Rafn Guðmundsson, bróðir Fanneyjar. „En þetta lofar allt mjög góðu."

Að sögn Gísla verður Fanney á Ullevål-sjúkrahúsinu fram yfir áramót, en að því loknu taki við frekari endurhæfing ytra.

Nánasta fjölskylda Fanneyjar er hjá henni úti í Ósló, en þau voru í jólaheimsókn í Geilo þegar slysið varð. Að sögn Gísla verður móðir þeirra áfram úti á meðan Fanney er að jafna sig.

Fanney var meðvitundarlaus og andaði ekki þegar að henni var komið á slysstað.

„Aðstoðarþjálfari á vettvangi komst fljótt til hennar. Hann náði að losa ól á brotnum hjálmi og setja hana í læsta hliðarlegu og þá tók hún aftur að anda," segir Gísli.

Slysi Fanneyjar svipar til þess þegar Arna Sigríður Albertsdóttir hryggbrotnaði og lamaðist þegar hún lenti á tré í æfingaferð Skíðafélags Ísafjarðar til Geilo fyrir fimm árum. Hún var þá 16 ára.

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×