Innlent

Glassúr og púðursykur reyndust of létt

Púðursykur frá Kötlu 500 gramma púðursykurinn frá Kötlu reyndist vera undir leyfilegri nettóþyngd samkvæmt könnun Neytendastofu.
Púðursykur frá Kötlu 500 gramma púðursykurinn frá Kötlu reyndist vera undir leyfilegri nettóþyngd samkvæmt könnun Neytendastofu.
Nettóþyngd Kötlu púðursykurs og glassúrs frá Kötlu eru undir leyfilegum mörkum sé miðað við merkingar á vörunum. Glassúrinn er að meðaltali um 30 prósentum undir nettóþyngd, vegur að meðaltali um 103 grömm, en samkvæmt pakkningu á varan að vega 150 grömm. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar Neytendastofu á þyngd sex vörutegunda sem notaðar eru í bakstur.

Hver einasta pakkning af Kötlu glassúr reyndist léttari en leyfilegt er. Kötlu púðursykurinn er merktur 500 g en um helmingur pokanna var meira en tveimur prósentum undir og meðalþyngdin reyndist líka minni en leyfilegt er.

Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Kötlu, segir ástæðuna vera mistök í merkingum. Flaskan af glassúr taki einungis 100 millilítra og því geti varan ekki vegið 150 grömm eins og standi á miðanum.

„Þegar við uppgötvuðum þetta var jólaösin skollin á og ekkert hægt að gera,“ segir Björn. Varðandi púðursykurinn segir Björn honum vera pakkað í vélum og sýni séu tekin reglulega, en málið verði skoðað.

Neytendastofa kannaði einnig Síríus Konsum súkkulaði frá Nóa Síríus, Frón pipardropa frá Íslensk-Ameríska, Matarsóda frá Pottagöldrum og gróft kókosmjöl merkt Hagveri frá Góðu fæði.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×