Innlent

Vill 1,3 milljónir króna frá Birni Bjarnasyni

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður krefur Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um eina milljón króna í miskabætur vegna ranghermis í bók Björns um Baugsmálið. Hann telur leiðréttingar Björns ekki duga til að firra hann ábyrgð.

Jón Ásgeir hefur stefnt Birni fyrir meiðyrði, og stóð til að taka málið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær en fyrirtökunni var frestað þar til í janúar.

Í stefnu Jóns Ásgeirs er þess krafist að Björn verði dæmdur til refsingar fyrir rangfærslur í bókinni Rosabaugur yfir Íslandi.

Þess er einnig krafist að rangfærslurnar verði ómerktar, og að Björn greiði 300 þúsund króna kostnað fyrir birtingu á dóminum. Alls krefst Jón Ásgeir því 1,3 milljóna, auk kostnaðar við stefnuna.

Jón Ásgeir telur tvö atriði í bók Björns meiðandi. Annars vegar segir Björn að Jón Ásgeir hafi verið dæmdur fyrir fjársvik, þegar rétt er að hann var dæmdur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot. Hins vegar er sagt að Jón Ásgeir hafi verið ákærður í ákærulið sem sneri að öðrum sakborningi.

Um leið og bent var á mistökin í bókinni leiðrétti Björn þau opinberlega og bað Jón Ásgeir afsökunar, auk þess sem þau hafa verið leiðrétt í annarri prentun bókarinnar, segir Jón Magnússon, lögmaður Björns.

„Hér er verið að krefjast ómerkingar á ummælum sem þegar hafa verið ómerkt," segir Jón. Björn fer fram á það fyrir dómi að Jón Ásgeir greiði allan kostnað við málið, auk álags á laun verjanda Baugs þar sem málið sé höfðað að þarflausu og án tilefnis.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×