Innlent

300 milljarðar fara í bættar samgöngur

Ríkið mun verja 296 milljörðum króna til nýrrar samgönguáætlunar fyrir árin 2011 til 2022, samkvæmt tillögum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra.

Annars vegar er um að ræða tólf ára samgönguáætlun, þar sem stærstum hluta fjármagnsins verður varið til vegamála, eða 240 milljörðum króna, og hins vegar fjögurra ára verkefnisáætlun með fjárhagsramma.

Fjölmörg verkefni eru í áætlun innanríkisráðherra. Þar á meðal eru nýjar brýr yfir Ölfusá og Hornafjarðarfljót, breikkun vegar milli Selfoss og Hveragerðis, breikkun Vesturlandsvegar og lagning bundins slitlags víðsvegar um landið.

Meðal helstu áherslna í áætlanagerðinni voru efling almenningssamgangna, að koma í veg fyrir banaslys í umferðinni, loftslagsmál, samgöngukostnaður heimilanna og jákvæð byggðaþróun.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að sérstök áhersla sé lögð á verkefni á landsvæðum þar sem í dag eru lakastar samgöngur.

Verkefnaáætlunin skiptist í sjö kafla; flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun, vegáætlun, áætlun Umferðarstofu, umferðaröryggisáætlun, almenn samgönguverkefni og framkvæmd verka á tímabilinu.

Þá verður á árunum 2011 til 2022 unnið að rannsóknar-, úttektar- og stefnumótunarverkefnum sem falla undir meginmarkmið samgönguáætlunar.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×