Innlent

Svar stjórnarinnar vonbrigði

Lögmannafélag Íslands 
Félagið segir sérstaka úrskurðarnefnd fara með mál vegna meintra brota lögmanna á lögum eða siðareglum.fréttablaðið/Pjetur
Lögmannafélag Íslands Félagið segir sérstaka úrskurðarnefnd fara með mál vegna meintra brota lögmanna á lögum eða siðareglum.fréttablaðið/Pjetur
Stjórn Lögmannafélags Íslands segir í svari sínu við erindi Agnars Kristjáns Þorsteinssonar og Ísaks Jónssonar vegna ummæla hæstaréttarlögmannsins Sveins Andra Sveinssonar að stjórnin fari ekki með mál vegna meintra brota lögmanna á lögum eða siðareglum. Sjálfstæð úrskurðarnefnd félagsins fer með slík mál.

Sveinn Andri skrifaði á Facebook-síðu sína á dögunum að móðir stúlkunnar sem kærði Egil Einarsson og kærustu hans fyrir nauðgun væri áhrifamanneskja innan VG og ætti hann bágt með að trúa því að það væri tilviljun að dóttir hennar hefði kært hann fyrir nauðgun, sér í lagi í ljósi þess að femínistar hötuðu Egil.

Agnar og Ísak skrifuðu opið bréf til stjórnar Lögmannafélagsins í kjölfarið, þar sem skorað var á félagið að taka skrif Sveins Andra til umfjöllunar.

„Að ákveðnu leyti veldur þessi yfirlýsing okkur vonbrigðum þar sem við töldum fullt tilefni til þess að Lögmannafélagið sjálft tæki afstöðu til þess og léti úrskurða um þessi ummæli [...]“ segja Agnar Kristján Þorsteinsson og Ísak Jónsson við svari stjórnarinnar.

Agnar og Ísak segjast í því framhaldi skoða næstu skref og athuga hvort sú leið sé fær að leggja fram formlega kvörtun til úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins. Auk þess skora þeir á þá sem brotið er á í þessu tilviki að gera slíkt hið sama.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×