Innlent

Gæsluvarðhald þremenninganna staðfest

Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhald yfir Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og tveimur fyrrverandi undirmönnum hans. Þeir sitja í varðhaldi vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á meintum umfangsmiklum brotum í rekstri bankans fyrir hrun.

Hinir mennirnir tveir eru Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, og Ingi Rafnar Júlíusson, fyrrverandi verðbréfamiðlari. Varðhaldsúrskurðurinn er til miðvikudagsins næsta.

Viðskiptin sem til rannsóknar eru vegna gruns um stórfellda, kerfisbundna markaðsmisnotkun og önnur brot árin 2004 til 2008 nema á annað hundrað milljörðum og hafa alls um þrjátíu manns verið yfirheyrðir vegna þeirra á síðustu dögum.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að sérstakur saksóknari hefði boðað Bjarna Ármansson, sem var bankastjóri á undan Lárusi, til yfirheyrslu. Bjarni er á ferðalagi og ekki væntanlegur til landsins fyrr en í síðari hluta desember. Þá mun hann mæta í skýrslutöku.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×