Innlent

Takast á við stórmeistarann

Stórmeistari Friðrik Ólafsson mun mæta tíu efnilegum skákmönnum í fjöltefli í Hörpu á morgun. fréttablaðið/Anton
Stórmeistari Friðrik Ólafsson mun mæta tíu efnilegum skákmönnum í fjöltefli í Hörpu á morgun. fréttablaðið/Anton
Tíu af efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar munu tefla fjöltefli við stórmeistarann Friðrik Ólafsson í Hörpu í dag. Uppákoma þessi er á vegum Skákskóla Íslands og Skákakademíu Reykjavíkur.

Helgi Ólafsson, skólastjóri Skákskólans, segir í samtali við Fréttablaðið að krakkanna bíði erfitt en skemmtilegt verkefni að tefla við Friðrik.

„Hann er auðvitað stórmerkilegur skákmaður eins og ferill hans sýnir. Hann varð fyrst Íslandsmeistari fyrir tæpum sextíu árum og varð Norðurlandameistari árið eftir. Hann náði hápunkti ferilsins á árunum 1958 til 59 þegar hann komst á áskorendamótið um heimsmeistaratitilinn. Þar mætti hann mönnum eins og Bobby Fischer, sem var þá unglingur, Tal, Petrosjan og fleirum. Þessir þrír urðu allir síðar heimsmeistarar, þannig að þetta má kalla eins konar gullöld skáklistarinnar.“

Helgi segir Friðrik hafa haft mikil áhrif á sína kynslóð, sem er skipuð mörgum stórmeisturum, en Friðrik sjálfur hafi einnig notið góðs af afrekum íslenskra sporgöngumanna í skákinni.

„Það voru margir góðir skákmenn hér á Íslandi á tuttugustu öldinni en Friðrik er skákmaður aldarinnar, á því er enginn vafi.“ Fjölteflið hefst stundvíslega klukkan 13 og mun standa í um tvær klukkustundir. Allir eru velkomnir að fylgjast með krökkunum takast á við stórmeistarann. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×