Innlent

Ófrjósemisaðgerðum fjölgaði milli ára

Í fyrra gekkst 571 einstaklingur undir ófrjósemisaðgerð hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu. Um er að ræða 162 konur og 409 karla.

Til samanburðar voru framkvæmdar 512 ófrjósemisaðgerðir á árinu 2009 og varð því nærri tólf prósent fjölgun á aðgerðum milli ára. Þá hefur undanfarinn áratug orðið algjör viðsnúningur á hlutfalli karla og kvenna sem gangast undir ófrjósemisaðgerðir.

Árið 2000 voru karlar ríflega 32 prósent þeirra sem fóru í slíka aðgerð en konur tæplega 68 prósent. Árið 2010 var hins vegar hlutfall þeirra karla sem fóru í ófrjósemisaðgerðir komið upp í 72 prósent en hlutfall kvenna niður í 28 prósent. Það hefur því ekki einungis orðið viðsnúningur á kynjahlutfalli hvað varðar fjölda ófrjósemisaðgerða heldur er þetta bil á milli kynjanna enn að aukast.

Líkleg ástæða þessa viðsnúnings er meðal annars aukin þekking almennings á aðgerðunum og minni fordómar. Menn gera sér betur grein fyrir því nú hversu lítil aðgerð þetta er í raun og veru fyrir karlmenn. Ófrjósemisaðgerðir á konum eru flóknari og þær eru lengur að jafna sig.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×