Góð byggðastefna? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 29. nóvember 2011 06:00 Þegar Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra var bent á tvískinnunginn í því að hann synjaði Huang Nubo um undanþágu frá banni við fasteignakaupum útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins, en EES-borgarar gætu keypt jarðir og aðrar fasteignir umyrðalaust, svaraði Ögmundur því til að hann vildi líka setja hömlur á fjárfestingar EES-borgara. Nú hefur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, flokkssystir ráðherrans, boðað þingsályktunartillögu um endurskoðun á öllu regluverki sem varði rétt útlendinga til að kaupa land á Íslandi, væntanlega til að fylgja þessu eftir. Hún segir í Fréttablaðinu í gær að eitt af markmiðunum sé að koma í veg fyrir kaup erlendra aðila sem ekki hafa hér lögheimili eða fasta búsetu á landi. Með þessari breytingu væri botninn væntanlega dottinn úr EES-samningnum, sem kveður á um frelsi í fjárfestingum. Vinstri grænum er sama um það og þá væntanlega líka um hin gagnkvæmu réttindi til fasteignakaupa sem Íslendingar njóta í öðrum ríkjum EES. Umræðan um hina hættulegu útlendinga, sem ágirnast Ísland, rifjar hins vegar upp hrakspárnar og bábiljurnar sem menn höfðu uppi áður en Ísland gerðist aðili að EES. Þá var því spáð að útlendingar myndu kaupa hér upp heilu sveitirnar án þess að landsmenn fengju rönd við reist. Til þess að draga úr líkum á slíku var reynt að setja „girðingar“ í jarða- og ábúðarlög og þrengja að rétti landeigenda til að selja eignir sínar á frjálsum markaði. Í lög voru sett skilyrði um að til að fá að kaupa jörð yrðu menn að fá samþykki sveitarstjórna og jarðanefnda, hafa stundað landbúnað á Íslandi í tvö ár og þar fram eftir götum. Tæpum áratug síðar kom tvennt í ljós. Annars vegar að áhyggjurnar af gífurlegri ásókn útlendinga í íslenzkar bújarðir voru fullkomlega ástæðulausar. Hins vegar að „girðingarnar“ stuðluðu að því að menn fengu lægra verð en ella fyrir jarðirnar. Aukinheldur gerði ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, athugasemdir við ýmis ákvæði. Jarða- og ábúðarlögum var því breytt til frjálsræðisáttar í landbúnaðarráðherratíð Guðna Ágústssonar. Jóni Bjarnasyni landbúnaðarráðherra þótti frelsið í viðskiptum með jarðir orðið heldur mikið. Hann hefur þess vegna látið vinna drög að lagafrumvarpi sem hækkar girðingarnar á ný, endurvekur ábúðarskyldu og þrengir skilgreiningu á landbúnaði þannig að þær jarðir einar teljist vera lögbýli, þar sem er stunduð matvælaframleiðsla. Þessar tillögur hafa Landssamtök landeigenda réttilega kallað aðför að eignarrétti og til þess fallnar að verðfella jarðir. Stefna VG varðandi fjárfestingar í jörðum er með öðrum orðum þessi: Útiloka að útlendingar geti keypt jarðir. Það þýðir að stórar eignir, eins og til dæmis Grímsstaðir, geta áfram verið árum saman til sölu án þess að eigendurnir fái nokkurn tímann sanngjarnt tilboð í eign sína. Þrengja þar að auki skilyrði fyrir því að Íslendingar geti keypt jarðir, hafa vit fyrir fólki um það hvernig það nýtir eignir sínar, lækka þannig jarðaverð og hamla gegn því að önnur atvinnustarfsemi en hefðbundinn landbúnaður hasli sér völl á landsbyggðinni. Ætli þetta sé alveg örugglega skilvirk byggðastefna? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun CP félagið, er það til? Steinunn Þorsteinsdóttir Skoðun Isavia - þar sem sögur fara á flug Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Að ná sér Skúli S. Ólafsson Skoðun Hvernig væri að Isavia setti viðskiptavini sína í forgang? Ó. Ingi Tómasson Skoðun
Þegar Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra var bent á tvískinnunginn í því að hann synjaði Huang Nubo um undanþágu frá banni við fasteignakaupum útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins, en EES-borgarar gætu keypt jarðir og aðrar fasteignir umyrðalaust, svaraði Ögmundur því til að hann vildi líka setja hömlur á fjárfestingar EES-borgara. Nú hefur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, flokkssystir ráðherrans, boðað þingsályktunartillögu um endurskoðun á öllu regluverki sem varði rétt útlendinga til að kaupa land á Íslandi, væntanlega til að fylgja þessu eftir. Hún segir í Fréttablaðinu í gær að eitt af markmiðunum sé að koma í veg fyrir kaup erlendra aðila sem ekki hafa hér lögheimili eða fasta búsetu á landi. Með þessari breytingu væri botninn væntanlega dottinn úr EES-samningnum, sem kveður á um frelsi í fjárfestingum. Vinstri grænum er sama um það og þá væntanlega líka um hin gagnkvæmu réttindi til fasteignakaupa sem Íslendingar njóta í öðrum ríkjum EES. Umræðan um hina hættulegu útlendinga, sem ágirnast Ísland, rifjar hins vegar upp hrakspárnar og bábiljurnar sem menn höfðu uppi áður en Ísland gerðist aðili að EES. Þá var því spáð að útlendingar myndu kaupa hér upp heilu sveitirnar án þess að landsmenn fengju rönd við reist. Til þess að draga úr líkum á slíku var reynt að setja „girðingar“ í jarða- og ábúðarlög og þrengja að rétti landeigenda til að selja eignir sínar á frjálsum markaði. Í lög voru sett skilyrði um að til að fá að kaupa jörð yrðu menn að fá samþykki sveitarstjórna og jarðanefnda, hafa stundað landbúnað á Íslandi í tvö ár og þar fram eftir götum. Tæpum áratug síðar kom tvennt í ljós. Annars vegar að áhyggjurnar af gífurlegri ásókn útlendinga í íslenzkar bújarðir voru fullkomlega ástæðulausar. Hins vegar að „girðingarnar“ stuðluðu að því að menn fengu lægra verð en ella fyrir jarðirnar. Aukinheldur gerði ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, athugasemdir við ýmis ákvæði. Jarða- og ábúðarlögum var því breytt til frjálsræðisáttar í landbúnaðarráðherratíð Guðna Ágústssonar. Jóni Bjarnasyni landbúnaðarráðherra þótti frelsið í viðskiptum með jarðir orðið heldur mikið. Hann hefur þess vegna látið vinna drög að lagafrumvarpi sem hækkar girðingarnar á ný, endurvekur ábúðarskyldu og þrengir skilgreiningu á landbúnaði þannig að þær jarðir einar teljist vera lögbýli, þar sem er stunduð matvælaframleiðsla. Þessar tillögur hafa Landssamtök landeigenda réttilega kallað aðför að eignarrétti og til þess fallnar að verðfella jarðir. Stefna VG varðandi fjárfestingar í jörðum er með öðrum orðum þessi: Útiloka að útlendingar geti keypt jarðir. Það þýðir að stórar eignir, eins og til dæmis Grímsstaðir, geta áfram verið árum saman til sölu án þess að eigendurnir fái nokkurn tímann sanngjarnt tilboð í eign sína. Þrengja þar að auki skilyrði fyrir því að Íslendingar geti keypt jarðir, hafa vit fyrir fólki um það hvernig það nýtir eignir sínar, lækka þannig jarðaverð og hamla gegn því að önnur atvinnustarfsemi en hefðbundinn landbúnaður hasli sér völl á landsbyggðinni. Ætli þetta sé alveg örugglega skilvirk byggðastefna?
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun