Innlent

Sögð setja byrðar á bágstödd sveitarfélög

einar k. guðfinnsson
einar k. guðfinnsson
ögmundur jónasson
Sú ákvörðun að úthluta 300 milljónum af 700 milljóna aukaframlagi jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Álftaness var gagnrýnd harðlega á Alþingi í gær. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að með þessu væri verið að setja byrðar á þau sveitarfélög sem bágast stæðu.

Einar var málshefjandi í utandagskrárumræðu um málið. Hann benti á að aukaframlaginu hefði verið komið á til að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaga og jafna aðstöðumun. Alls fengju 17 sveitarfélög meira en tvö prósent tekna sinna í gegnum aukaframlagið. Heildarupphæð þess í ár nemur 700 milljónum króna, en nam 1 milljarði í fyrra.

Einar gagnrýndi að innanríkis- og fjármálaráðherra hefðu ákveðið einhliða að binda 40 prósent af upphæðinni við sveitarfélagið Álftanes.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra minnti á að aukaframlagið væri ekki lögbundið og það hefði rokkað í fjárhæðum og til að mynda fallið niður árin 2002 og 2005. Hann sagði að nú væri úthlutað úr sjóðnum eftir fjárhagsstöðu sveitarfélaga, þar stæði Álftanes bágast.

Fjárhaldsstjórn með Álftanesi óskaði eftir að allt aukaframlagið rynni til Álftaness, en sveitarfélögin mótmæltu því. Þess vegna hefði verið ákveðið að sú tala yrði 300 milljónir í ár.

Fjölmargir þingmenn tóku til máls og sýndist sitt hverjum um ráðstöfunina. Ögmundi virðist hafa þótt umræðan litast af kjördæmahagsmunum: „Um eitt hef ég sannfærst, það er það að brýnt er að gera Ísland að einu kjördæmi, að við horfum heildstætt á málin, en ekki út frá einu og einu kjördæmi.“

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×