Innlent

Loka á veiðimennina

Rjúpa Vinsæll veiðifugl og eftirsóttur jólamatur en fækkar stöðugt.
Rjúpa Vinsæll veiðifugl og eftirsóttur jólamatur en fækkar stöðugt.
Gremju gætir nú meðal rjúpnaveiðimanna vegna takmarkana sem ýmis sveitarfélög hafa sett á veiðimennskuna á þessu tímabili.

Menn sem hugðust ganga til rjúpna um síðustu helgi í nágrenni Hólmavíkur fréttu til dæmis á síðustu stundu að veiðilendurnar hefðu skroppið verulega saman eftir að sveitarstjórnin samþykkti á fimmtudag í síðustu viku að banna veiðar í landi sveitarfélagsins.

Í Langanesbyggð hefur öllum heiðarvegum verið lokað tímabundið. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu sveitarfélagsins er það gert til þess að rjúpnaveiðimenn aki ekki inn á vegina sem eru í viðkvæmu ásigkomulagi vegna aurbleytu. Skotveiðifélag Íslands, Skotvís, hefur gagnrýnt aðgerðir sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem ákvað að selja veiðimönnum aðgang að afréttum „enn eitt árið“ eins og segir í yfirlýsingu félagsins.

Skotvís vitnar í lagabókstafinn þar sem segir að allir íslenskir ríkisborgarar og erlendir menn með lögheimili hérlendis megi veiða í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla þar sem enginn geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Skotvís segir Húnaþing vestra neita að sýna gögn um eignarhald sitt.

„Viðbrögð sveitarfélagsins við kurteislegri beiðni Skotvís er því ekki hægt að túlka á annan veg en að um grófa aðför sé að ræða að rétti almennings til veiða og það ber að fordæma. Því hvetur Skotvís alla þá sem veiða á umræddum svæðum og lenda í útistöðum við meinta landeigendur að kalla sýslumann á vettvang,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×