Innlent

Fyrirmæli voru ekki framkvæmanleg

Laufásvegur 68 Leyfi var veitt fyrir ýmsum breytingum við húsið árið 2007 en leyfið síðan afturkallað eftir kæru frá nágranna. Sú ákvörðun hefur verið úrskurðuð ógild.Fréttablaðið/Vilhelm
Laufásvegur 68 Leyfi var veitt fyrir ýmsum breytingum við húsið árið 2007 en leyfið síðan afturkallað eftir kæru frá nágranna. Sú ákvörðun hefur verið úrskurðuð ógild.Fréttablaðið/Vilhelm
Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að afturkalla að hluta byggingarleyfi vegna breytinga við íbúðarhús á Laufásvegi hefur verið ógilt af úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Á árinu 2007 var veitt leyfi til þess að byggja við Laufásveg 68 anddyri, stækka nýsamþykktar svalir með geymslurými undir og koma fyrir heitum potti á stækkuðum svölum. Eftir kæru frá nágranna var byggingarleyfið á endanum afturkallað að hluta og húseigandanum tilkynnt í mars 2010 að lagðar yrðu á hann 25 þúsund króna dagsektir þar til hann hefði fjarlægt sumar framkvæmdirnar og komið öðrum í það horf sem samræmdist aðaluppdráttum. Þessa ákvörðun kærði hann.

Úrskurðarnefndin segir fyrirmæli borgarinnar hafa verið óljós og óframkvæmanleg og ákvörðun hennar haldna verulegum annmörkum, bæði hvað varðar form og efni.

„Verður að gera þá kröfu að íþyngjandi ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða séu skýrar og framkvæmanlegar og studdar málefnalegum rökum. Þykir mikið á skorta að hin kærða ákvörðun fullnægi þessum skilyrðum og verður hún því felld úr gildi,“ segir úrskurðarnefndin.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×