Innlent

Menntun kvenna í forgrunni

Vigdís Finnbogadóttir
Vigdís Finnbogadóttir
Málstofa um menntun stúlkna og kvenna á 36. aðalráðstefnu Unesco, menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, í París hófst formlega í gær. Vigdís Finnbogadóttir opnaði málstofuna með fyrirlestri en hún er velgjörðarsendiherra Unesco og ráðgjafi framkvæmdastjóra Unesco, Irinu Bokovu.

Málstofan var haldin í tilefni af átaksverkefni Unesco, Samstarfi heimsbyggðarinnar um menntun stúlkna og kvenna. Samstarfið hófst fyrr á árinu og tekur fjöldi stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja um heim allan þátt, þar á meðal Nokia og Microsoft, auk aðildarríkja Unesco.

Verkefnisráðið kynnir mikilvægi þess að jafna stöðu kynjanna með menntun og kynna hagnýtar lausnir og góð fordæmi. Í tilkynningu frá Unesco kemur fram að í dag eru 39 milljónir stúlkna á gagnfræðaskólaaldri sem eiga ekki völ á skólagöngu. Þetta eru 26 prósent allra stúlkna á aldrinum 11 til 15 ára. Tvær af hverjum þremur stúlkum í Afríku fá ekki gagnfræðamenntun og af 796 milljónum fullorðinna jarðarbúa sem eru ólæsir eru 2/3 konur.

Talið er að það gæti bjargað allt að 1,8 milljónum mannslífa á ári ef stúlkur í Afríku sunnan Sahara fengju almennt að ganga í gagnfræðaskóla. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×