Innlent

Frábiður sér hnýsni í kortafærslur

Líður eins og í 1984 Jón Magnússon vill að Seðlabankinn verði sviptur heimild til að skoða kreditkortafærslur.
Líður eins og í 1984 Jón Magnússon vill að Seðlabankinn verði sviptur heimild til að skoða kreditkortafærslur.
„Við erum bara komin í þjóðfélag sem George Orwell lýsti í bók sinni 1984. Hið vakandi auga ríkisins hefur eftirlit með þér,“ segir Jón Magnússon, lögmaður og fyrrverandi alþingismaður, sem hefur stefnt Persónuvernd fyrir dómstóla og krafist ógildingar á úrskurði hennar.

„Persónuvernd heimilaði Seðlabanka Íslands að skoða kreditkortafærslur allra Íslendinga með tilliti til gjaldeyrisyfirfærslna. Það var gert án nokkurs lágmarks eða skilyrða. Ég tel að þarna sé brotinn réttur á mér með því að heimila óeðlilega hnýsni í mín einkamálefni,“ segir Jón.

Hann segir engan einstakling í þjóðfélaginu undanskilinn í heimild Seðlabankans og því hljóti hann að teljast hagsmunaaðili í málinu, eins og allir aðrir.

„Það er alveg hægt að viðurkenna að þegar menn setji svona fyrirbrigði eins og gjaldeyrishöft geti þurft að fylgja því eftir með víðtækum skoðunum í þjóðfélaginu, en þá ber náttúrulega að takmarka það þannig að þú sért ekki með fjármál allra borgara í landinu gjörsamlega opin fyrir skoðunarmönnum,“ segir Jón.

„Ég vil bara ekki að Stóri bróðir geti verið með nefið ofan í öllu mínu,“ bætir hann við og kveðst munu láta kalla seðlabankastjóra og fleiri fyrir dóminn til að gera grein fyrir málinu.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×