Innlent

Tveir með stöðu grunaðs í lífeyrissvikamáli

Í reiðufé Lífeyririnn var tekinn út í reiðufé jafnóðum og hann var lagður inn á reikning.
Í reiðufé Lífeyririnn var tekinn út í reiðufé jafnóðum og hann var lagður inn á reikning.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er langt komin með rannsókn sína á máli þar sem í ljós kom að Tryggingastofnun hafði haldið áfram að greiða út ellilífeyri á bankareikning konu í tíu ár eftir að hún lést úti í Bandaríkjunum.

Lífeyririnn var greiddur inn á reikning hér heima en tekinn út af honum jafnóðum. Leikur grunur á að þeir sem það gerðu hafi nýtt sér fjármunina í eigin þágu. Tveir einstaklingar hafa stöðu grunaðs í málinu.

Það var árið 2000 sem konan, sem var íslenskur ríkisborgari, lést úti í Bandaríkjunum, þar sem hún hafði búið frá því á sjötta áratug síðustu aldar. Hún var á níræðisaldri þegar hún lést.

Af óútskýrðum ástæðum var andlát konunnar ekki skráð hér heima, þannig að Tryggingastofnun hélt áfram að greiða út lífeyri í hennar nafni.

Alls greiddi stofnunin um fjórtán milljónir króna í tíu ár eftir andlát hennar en ekkert gaf stofnuninni tilefni til að hætta lífeyrisgreiðslunum, þar sem dánartilkynning hafði ekki borist til Þjóðskrár og þaðan áfram til Tryggingastofnunar. Virðist helst sem dánarvottorð hafi aldrei borist til Íslands frá Bandaríkjunum.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu yfirheyrt fólk sem talið er tengjast málinu.

Ellilífeyrir konunnar var lagður inn hér heima en tekinn út í reiðufé um leið og hann barst inn á reikninginn, samkvæmt upplýsingum blaðsins.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×