Innlent

Hefja strax vinnu við áætlunargerð

Íslensk stjórnvöld munu á næstu mánuðum vinna að aðgerðaáætlun þar sem væntanleg framkvæmd stefnu ESB í byggðamálum og stjórnsýsla henni tengd verður skýrð. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Sú áætlun þarf að liggja fyrir áður en ESB fellst á að hefja efnislegar viðræður í þeim málaflokki að því er fram kemur í orðsendingu sem fylgdi niðurstöðum rýnivinnu til íslenskra stjórnvalda frá fastafulltrúa Póllands hjá ESB. Pólland fer sem stendur með formennsku hjá sambandinu.

Í rýniskýrslunni segir að þar sem Ísland hyggist ekki innleiða regluverk ESB áður en þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild fer fram, verði erfitt að semja um málið og í ljós reynslunnar verði knappur tími milli samþykktar og gildistöku samningsins.

Þess vegna þurfi að liggja fyrir ítarleg, tímasett áætlun um framkvæmd á sviði byggðamála.

Meðal annars sem kemur fram í rýniskýrslunni er það mat ESB að íslensk löggjöf í þessum málaflokki sé að mestu í samræmi við kröfur, en þó þurfi að styrkja lagagrundvöll á ýmsum sviðum.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×