Innlent

Lífeyrissjóðir láni fyrir þyrlum

landhelgisgæslan Talið er að Landhelgisgæslan þarfnist fjögurra þyrlna til að tryggja fyllsta öryggi.
Fréttablaðið/vilhelm
landhelgisgæslan Talið er að Landhelgisgæslan þarfnist fjögurra þyrlna til að tryggja fyllsta öryggi. Fréttablaðið/vilhelm
Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, hefur lagt til að lífeyrissjóðirnir láni ríkinu fé fyrir kaupum á tveimur björgunarþyrlum. Þyrlurnar yrðu síðan leigðar til Landhelgisgæslunnar í tíu ár en þá myndi ríkið eignast þyrlurnar. Guðmundur telur að lífeyrissjóðirnir, Landhelgisgæslan og landsmenn allir myndu njóta góðs af ráðahagnum.

„Ég er að leggja til að farin yrði svipuð leið og menn hafa rætt um í sambandi við vegagerð. Það yrði búið til fjársýslufyrirtæki sem tæki lán hjá lífeyrissjóðunum og keypti þyrlurnar. Fyrirtækið myndi síðan lána þyrlurnar til Landhelgisgæslunnar og ríkissjóður greiða af skuldabréfinu,“ segir Guðmundur og bætir við að fara þurfi þessa leið þar sem lífeyrissjóðum er ekki heimilt að reka slíkt fyrirtæki.

Landhelgisgæslan á og rekur þyrluna TF LÍF og hefur þyrluna TF GNÁ á leigu til ársins 2014. Samkvæmt útreikningum Guðmundar myndi leiga á tveimur nýjum þyrlum kosta ríkið 36,57 milljónir á mánuði en ríkið greiðir nú 24,15 milljónir fyrir eina þyrlu.

Guðmundur hefur verið að kynna tillöguna um nokkra hríð og meðal annars fundið með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra um málið. Hann hafi hins vegar ekki brugðist við tillögunni.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×