Innlent

Réttindi fatlaðra ofar réttindum eignafólks

Ögmundur jónasson Sagði það rétt allra íbúa heimsins að mótmæla.
Ögmundur jónasson Sagði það rétt allra íbúa heimsins að mótmæla.
Mannréttindi hafa á undanförnum árum verið skilgreind í of miklum mæli út frá markaðslögmálum og eignarrétti og það hefur komið niður á almannahagsmunum. Þetta sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þegar hann flutti skýrslu um stöðu mannréttinda á Íslandi hjá vinnuhópi Sameinuðu þjóðanna í Genf í gær.

„Þegar við stöndum frammi fyrir vali milli þess að setja eignir og fjárhagsleg réttindi í forgang eða réttindi fatlaðra og annarra sem standa höllum fæti mæli ég með því að við veljum hið síðara,“ sagði Ögmundur.

„Á heildina litið held ég að fullyrða megi að staðan sé nokkuð góð,“ sagði Ögmundur. Hins vegar hefðu Íslendingar staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum í kjölfar efnahagshrunsins.

Hann vék að Búsáhaldabyltingunni í janúar 2009 og sagði að hún væri áminning um óskoraðan rétt fólks til að koma saman og mótmæla og standa vörð um velferðarkerfi sitt. Sá réttur þyrfti að vera í hávegum hafður hvarvetna í heiminum.

Ögmundur varði drjúgum hluta ræðu sinnar í umfjöllun um kynjamisrétti, ekki síst heimilis- og kynferðisofbeldi gegn konum. Hann sagði að þökk sé ósérhlífni íslenskra kvenréttindasamtaka væri slíkt ofbeldi ekki falið hér á landi heldur rætt opinskátt.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×