Innlent

Mótmæla frekari niðurskurði

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Stofnuninni er gert að skera niður um 70 milljónir á starfsárinu 2012.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Stofnuninni er gert að skera niður um 70 milljónir á starfsárinu 2012.
Stjórn Læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir að frekari skerðing á fjárframlögum til stofnunarinnar muni leiða til skertrar grunnþjónustu á Suðurlandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórnin sendi frá sér í gær.

Í yfirlýsingunni segir að niðurskurður á fjárframlögum hafi þegar valdið alvarlegum áhrifum á starfsemina. Sérfræðilæknar hafi horfið frá störfum og skortur sé á læknum. Þá fáist ekki viðbrögð við auglýsingum um lausar stöður. Eftir standi fámennari hópur lækna sem finni fyrir vaxandi álagi.

Stjórnin segir hagræðingarkröfur stjórnvalda því óbilgjarnar og gera það að verkum að íbúar svæðisins þurfi að sækja þjónustu annað sem sé ekki hagkvæmt.

Samkvæmt yfirlýsingunni krefst velferðarráðuneytið hagræðingar um 70 milljónir króna á ársgrundvelli fyrir starfsárið 2012, sé tekið tillit til frestunar á sparnaðaraðgerðum sem framkvæma átti árið 2010. Loks segir í yfirlýsingunni að samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins eigi að hlífa grunnþjónustu og heilsugæslu á svæðinu. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×