Innlent

Innkaup löggæslustofnana skoðuð í ráðuneytinu

ríkislögreglustjóri Ríkisendurskoðun gagnrýnir í nýrri skýrslu innkaup hjá nokkrum löggæslustofnunum.
ríkislögreglustjóri Ríkisendurskoðun gagnrýnir í nýrri skýrslu innkaup hjá nokkrum löggæslustofnunum.
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra varar við því að menn hrapi að ályktunum í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um innkaup löggæslustofnana. Málið sé til skoðunar í ráðuneytinu.

„Mér finnst að menn eigi að fara varlega í allar staðhæfingar um að lög hafi verið brotin áður en öll kurl eru komin til grafar,“ segir Ögmundur og bætir við: „Ég hef óskað eftir skýrslu frá Ríkislögreglustjóra um málið og við munum taka ábendingar Ríkisendurskoðunar til markvissrar skoðunar. Ef niðurstaðan er sú að það sé þörf að bæta vinnuferla munum við náttúrulega bregðast við því og gera breytingar.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru gagnrýnd viðskipti löggæslustofnanna upp á 91,3 milljónir króna við fjögur félög í eigu lögreglumanna eða venslamanna þeirra. Þá er gefið í skyn að í einu tilfelli hafi embætti Ríkislögreglustjóra gerst brotlegt við lög um opinber innkaup.

Í yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra segir að í því tilfelli hafi verið um „skyndiinnkaup“ að ræða vegna neyðarástands sem hafi skapast í kjölfar bankahrunsins. Ómögulegt hafi verið að láta útboð fara fram við þær aðstæður. Þá segir þar að fyrirtæki sem séu umboðsaðilar fyrir búnað til lögreglustarfa séu flest tengd starfandi eða fyrrverandi lögreglumönnum.

Ögmundur segir að lögreglumönnum og ættmennum þeirra sé ekki óheimilt að eiga fyrirtæki og bætir við: „Stóra málið er hvernig staðið hefur verið að innkaupum, hvort að þeir sem að sjá um innkaup eru með einhver óeðlileg tengsl. Ef svo væri þyrfti að skoða það sérstaklega en við gefum okkur að sjálfsögðu ekkert fyrir fram.“- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×