Innlent

Davíð Smári talaði af sér í hleruðu símtali

Davíð Smári.
Davíð Smári.
Davíð Smári Helenarson var í gær dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir líkamsárás á skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll í apríl í fyrra.

Hvorki fórnarlambið né nokkur vitni voru til frásagnar um aðild Davíðs að málinu. Daginn eftir gortaði Davíð hins vegar af árásinni í síma við viðskiptafélaga sinn, sem vildi til að lögregla var að hlera vegna rannsóknar á fíkniefnamáli. Þar lýsir hann árásinni, segir „…lömdum hann alveg í spað á klósettinu á Nasa,“ og segist hafa brotið flösku á höfði fórnarlambsins og sparkað í það.

Tveir voru ákærðir fyrir árásina, Davíð og annar maður, jafnvel þótt ljóst þyki að fleiri hafi tekið þátt í henni. Þolandinn kærði einungis hinn sakborninginn þar sem hann þekkti engan annan.

Sá var hins vegar sýknaður þar sem ekki þóttu nægar sannanir fyrir því að hann hefði átt upptökin að átökunum eins og fórnarlambið hélt fram og hefði ekki bara verið að verja hendur sínar.

Davíð gekkst við því að hafa átt í átökum við manninn en sagðist ekki hafa átt upptökin að þeim. Hann var engu að síður sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og er það í fimmta skipti frá árinu 2003 sem hann hlýtur dóm fyrir líkamsárás.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×