Innlent

Fyrirtæki skapi sátt með jafnlaunastaðli

Launajafnrétti „Við erum föst í hugsanaganginum sömu laun fyrir sömu vinnu,“ segir Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur stjórnarráðsins í jafnrétti kynja.
Fréttablaðið/gva
Launajafnrétti „Við erum föst í hugsanaganginum sömu laun fyrir sömu vinnu,“ segir Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur stjórnarráðsins í jafnrétti kynja. Fréttablaðið/gva
Vinnuhópur tækninefndar Staðlaráðs er að leggja lokahönd á tillögu um jafnlaunastaðal sem fyrirtæki og stofnanir geta síðan tekið í notkun, að því er Hildur Jónsdóttir, formaður tækninefndar ráðsins og sérfræðingur stjórnarráðsins í jafnrétti kynja, greinir frá.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins leituðu til Staðlaráðs vegna gerðar jafnlaunastaðals og hófst vinnan í ársbyrjun 2009.

„Staðlaráð tilkynnti þá strax að það væri almennt viðurkennt að þrjú ár þyrfti til slíks verkefnis. Ráðið sendi erindi til allra hagsmunaaðila og bauð þeim að taka þátt. Þeir sem svöruðu kallinu mynda tækninefnd. Vonandi samþykkir tækninefndin tillögu vinnuhópsins,“ segir Hildur.

Því næst þarf að auglýsa svokallað frumvarp að staðlinum, segir Hildur. „Það þarf að gefa rúman tíma fyrir athugasemdir sem hver sem er getur komið með. Taka þarf þær allar til efnislegrar umfjöllunar og veita rökstudd svör. Ég geri mér vonir um að auglýsingaferlið geti hafist fyrir áramót. Frestur til að skila inn athugasemdum yrði tveir til þrír mánuðir og mögulega tæki það tvo mánuði að vinna úr þeim.“

Að sögn Hildar þurfa jafnframt vottunarstofur eða einhvers konar úttektaraðilar að uppfylla ákveðnar hæfniskröfur til að sýna að þau geti tekið út fyrirtæki samkvæmt staðlinum.

Nokkur fyrirtæki hafa þegar lýst yfir áhuga á að taka upp jafnlaunastaðal. „Þau hafa verið að reyna að fylgjast með vinnunni auk þess sem nokkrir úr starfsmannadeildum stórra fyrirtækja hafa tekið þátt í vinnu tækninefndar.“

Hildur tekur það fram að hugtakið jafnverðmæt störf vefjist fyrir ýmsum. „Við erum föst í hugsanaganginum sömu laun fyrir sömu vinnu. Störf sem eru ólík að ytri ásýnd geta hins vegar verið jafnverðmæt þar sem þau geta verið jafnkrefjandi. Það hefur tekið okkur svolítinn tíma að komast á sömu blaðsíðuna.“

Með staðlinum er vonast til að markmiðum jafnlaunaákvæðis jafnréttislaga verði náð. „Ég tel að það sé mikið keppikefli fyrir fyrirtæki að innleiða svona staðal. Með honum getur fyrirtæki bæði skapað sátt meðal starfsmanna og traust þeirra á því að fyrirtækið geri allt sem hægt er til að axla sína ábyrgð þegar kemur að launajafnrétti kynjanna.“

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×