Innlent

Afdrep fyrir hunda í Hallargarðinum?

Útlegð að ljúka Hverfisráðið vill binda enda á áralanga útlegð hunda frá Laugaveginum.
Fréttablaðið/Hari
Útlegð að ljúka Hverfisráðið vill binda enda á áralanga útlegð hunda frá Laugaveginum. Fréttablaðið/Hari
Hverfisráð Miðborgar leggur til að bann við hundum í ól á Laugavegi verði afnumið. Þetta kemur fram í svari ráðsins til umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar sem óskað hafði eftir tillögum um hugsanlega staðsetningu hundagerðis í miðbænum.

Varðandi hundagerðið samþykkti hverfisráðið að nefna sjö staði sem mögulega. Meðal þeirra eru Hallargarðurinn á Fríkirkjuvegi og syðsti hluti Hljómskálagarðsins.

Aðrir möguleikar sem ráðið nefnir er svæði austan bensínstöðvar Olís við Skúlagötu, svæði milli Umferðarmiðstöðvar og tannlæknahúss, svæði austan Sæmundargötu og sunnan Hringbrautar, garð milli Þorfinnsgötu og Snorrabrautar og opið svæði sunnan Sundhallarinnar.

Áður hefur Hverfisráð Hlíða neitað að fallast á hundagerði á Klambratúni og Vesturbæingar felldu sig ekki við um hugmynd um gerði við Ægisíðu. Nú hafa hverfisráðin verið beðin að nefna hugsanleg svæði fyrir gerði. Afstaða þeirra flestra liggur ekki enn fyrir. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×