Innlent

Þingkona kærir ákvörðun til ráðuneytis

Við bílinn Eygló og eiginmaður hennar hafa kært ákvörðun Umferðarstofu til innanríkisráðherra. Fréttablaðið/anton
Við bílinn Eygló og eiginmaður hennar hafa kært ákvörðun Umferðarstofu til innanríkisráðherra. Fréttablaðið/anton
Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokks, hefur lagt fram stjórnsýslukæru til innanríkisráðherra vegna SP fjármögnunar og Umferðarstofu.

Eygló biður ráðuneytið að kanna hvort löglegt sé fyrir Umferðarstofu að neita að skrá eiginmann hennar sem eiganda fjölskyldubílsins, sem var keyptur á bílaláni hjá SP fjármögnun árið 2004.

Eiginmaður Eyglóar, Sigurður E. Vilhelmsson, fór fram á við Umferðarstofu 2. ágúst síðastliðinn að skráningu ökutækisins yrði breytt í samræmi við dóma Hæstaréttar. Sigurður vildi verða skráður eigandi fjölskyldubifreiðarinnar, en ekki SP fjármögnun. Umferðarstofa synjaði þessu.

„Kærandi kefst þess að innanríkisráðuneytið fjalli um ákvörðun Umferðarstofu frá 11. ágúst 2011 sl. þess efnis að synja beiðni hans um að vera skráður eigandi bifreiðarinnar RT337 í ökutækjaskrá stofnunarinnar. Jafnframt er þess krafist að ráðuneytið fjalli um efnislegt lögmæti ákvörðunarinnar,“ segir í kærunni.

Þá sendi Eygló efnahags- og viðskiptaráðherra skriflega fyrirspurn þess efnis hvort fjármögnunarfyrirtækin eigi ekki að telja þær bifreiðar sem þau segjast eiga, fram til skatts. Í ársreikningum fyrirtækjanna séu þær þó hvergi skráðar sem eign, heldur eru þær skráðar sem eign í skattframtölum lánþega. Eygló spyr ráðherra meðal annars hvort slíkt samræmist lögum.

„Efnahags- og viðskiptaráðherra fer yfir þetta og ég vænti þess að hann komi fram með afstöðu í þessu máli. Hann getur ekki hlaupist undan því,“ segir Eygló og vísar í dóma Hæstaréttar þar um. „Ég tel að við eigum bílana okkar.“ - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×