Innlent

Minna skip hentar Landeyjahöfn betur

Breiðafjarðarferjan Baldur sinnir siglingum milli lands og Eyja þessa dagana.Fréttablaðið/Óskar P. Friðriksson
Breiðafjarðarferjan Baldur sinnir siglingum milli lands og Eyja þessa dagana.Fréttablaðið/Óskar P. Friðriksson
Breiðafjarðarferjan Baldur hefur síðustu daga leyst Herjólf af í siglingum milli lands og Eyja. Dæluskipið Skandia hefur á meðan legið óhreyft í höfn, þar sem ekki hefur reynst ástæða til að dýpka Landeyjahöfn meðan á siglingum Baldurs hefur staðið. Baldur er nokkuð minna skip en Herjólfur og ristir ekki jafn djúpt.

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Siglingastofnunar, segir Skandia hafa búið vel í haginn fyrir veturinn í sumar og því sé í raun ekki rétt að tengja saman siglingar Baldurs og hreyfingarleysi Skandia. Hins vegar þurfi auðvitað meira að gerast til að siglingar Baldurs fari úr skorðum en Herjólfs vegna sands í höfninni.

„Það er aftur á móti ekkert leyndarmál að Landeyjahöfn var hönnuð fyrir annað skip og Herjólfur ristir mun dýpra en sú ferja sem áætlað var að smíða. Það má því eiginlega segja að við séum með Hummer-jeppa en bílskúr fyrir Yaris,“ segir Þórhildur Elín.

Herjólfur fór hinn 4. september til Danmerkur til viðhalds í slipp og hefur Baldur leyst hann af síðan. Búist er við Herjólfi aftur til Landeyjahafnar í næsta mánuði.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×