Innlent

Opinber útgjöld nær helmingur landsframleiðslu

Ísland er í hópi þeirra Evrópuríkja sem verja hvað mestu til heilbrigðismála samkvæmt samantekt.
Ísland er í hópi þeirra Evrópuríkja sem verja hvað mestu til heilbrigðismála samkvæmt samantekt.
Opinber útgjöld, að frádregnum ellilífeyrisgreiðslum almannatrygginga, eru hlutfallslega hæst á Íslandi meðal Evrópuríkja. Þetta kemur fram í tölum sem Samtök atvinnulífsins (SA) hafa birt.

Opinber útgjöld að frádregnum ellilífeyris-greiðslum námu tæpum 49 prósentum af landsframleiðslu árið 2009 samanborið við 40 prósenta meðaltal í Evrópu, að sögn SA sem notast við tölur frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD).

SA segir nauðsynlegt að taka tillit til sérstöðu íslenska lífeyriskerfisins og aldurssamsetningar þjóðarinnar til að fá raunhæfan samanburð á opinberum útgjöldum í ríkjum OECD. Því eru ellilífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Í tölunum kemur einnig fram að opinber útgjöld til annarra málaflokka en almannatrygginga og velferðarmála séu langhæst á Íslandi af öllum OECD-ríkjum. Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem verja hvað mestu til almennrar opinberrar þjónustu, heilbrigðismála og menntamála.

Sé litið til allra opinberra útgjalda, hjá ríki, sveitarfélögum og vegna almannatrygginga, námu þau árið 2009 51 prósenti af landsframleiðslu. Í þeim samanburði var Ísland með ellefta hæsta hlutfallið af 32 aðildarríkjum OECD.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×