Innlent

Samsetning bóta til skoðunar

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Samsetning bóta til fórnarlamba ofbeldis er nú til skoðunar í innanríkisráðuneytinu. Til þess að breyta samsetningu bótanna þarf að breyta lögum, að sögn Höllu Gunnarsdóttur, aðstoðarmanns innanríkisráðherra.

Hámarksbætur sem ríkissjóður greiðir fyrir líkamstjón eru 2,5 milljónir króna en fyrir miska 600 þúsund krónur. Ef um kynferðisbrot er að ræða greiðir ríkissjóður eingöngu miskabætur. Þessar hámarksbætur hafa verið óbreyttar frá árinu 1996.

Úrskurði dómari fórnarlambi ofbeldis bætur undir 400 þúsundum króna fær fórnarlambið engar bætur greiddar úr ríkissjóði vegna líkamstjóns og annars tjóns. Þetta var ákveðið 1. júlí 2009 vegna brota framinna eftir þann tíma. Lögfræðikostnaðurinn fellur jafnframt á fórnarlambið en annars greiðir ríkið yfirleitt þann kostnað.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagðist í byrjun sumars ætla að beita sér fyrir því að samsetning á ráðstöfun bótanna, annars vegar skaðabóta og hins vegar miskabóta, yrði skoðuð. „Það má vel vera að breyta þurfi innbyrðis vægi óháð því hvort aukin framlög koma til sögunnar,“ sagði innanríkisráðherra.

„Það var kallað eftir sjónarmiðum frá þeim sem halda utan um þessi mál og þau eru nú til skoðunar. Það er vilji til að breyta þessu,“ segir Halla Gunnarsdóttir.

- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×