Innlent

Bretar og Hollendingar fá allt til baka

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
„Þetta eru afskaplega góð tíðindi. Þetta sýnir að þær breytingar sem við gengumst fyrir í hruninu með neyðarlögunum, þegar innstæðum var skapaður forgangur, munu leiða til þess að innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi fái allt sitt til baka, jafnvel þó að þeir hafi verið með innstæður umfram það sem innstæðutryggingarkerfið átti að tryggja," segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, um nýtt mat á eignum þrotabús Landsbankans.

„Þetta mun væntanlega þýða að inneign í búinu dugi fyrir öllum innstæðum, líka innstæðum góðgerðarfélaganna í Bretlandi og sveitarfélaganna og innstæðum umfram þau mörk sem til dæmis hollensk stjórnvöld kusu að ábyrgjast, það er að segja 100 þúsund evrur," segir Árni Páll.

Hann segir þá mynd sem nú blasi við í Icesave-málinu annars eðlis en áður og það skapi forsendur til að ræða málið á annan hátt.

„Þessi niðurstaða mundi líka þýða að Bretar væru að fá að fullu til baka þá peninga sem þeir kusu að tryggja umfram lágmarkstrygginguna til að verja eigið fjármálakerfi. Ef þetta verður niðurstaðan, og ef Hæstiréttur staðfestir forgang allra innstæðueigenda, getur málið aldrei snúist um annað en mögulega kröfu Breta og Hollendinga um greiðslu vaxta í einhvern tíma."- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×