Innlent

Matarkarfan ódýrust í Krónunni - Bónus mótmælir vinnubrögðum

Allt að 28 prósenta verðmunur er á matarkörfu ASÍ á milli Krónunnar, þar sem hún er ódýrust, og Nóatúns, þar sem hún er dýrust.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í átta matvöruverslunum síðastliðinn mánudag. Matarkarfan í Krónunni kostaði 10.103 krónur en 12.912 krónur í Nóatúni. Lítill verðmunur reyndist vera á verði matar-körfunnar á milli Bónuss, Krónunnar og Víðis, en karfan var 26 krónum dýrari í Bónus en í Krónunni, og 179 krónum dýrari í Víði.

Dæmi eru um mikinn verðmun í öllum vöruflokkum. Sem dæmi má nefna morgunkornið Cheerios, sem var ódýrast á 804 krónur kílóið hjá Fjarðarkaupum en dýrast á 1.254 krónur kílóið hjá Nóatúni, sem er 56 prósenta verðmunur.

Matarkarfa ASÍ samanstendur af 33 almennum neysluvörum til heimilisins, til dæmis mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, og drykkjarvörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru.

Könnunin var gerð á sama tíma í verslunum Bónuss, Krónunnar, Nettó, Fjarðarkaupa, Samkaupa Úrvals, Víðis, Hagkaupa og Nóatúns. Kostur Dalvegi neitaði sem fyrr að taka þátt í könnuninni. Forsvarsmenn verslunarinnar hafa ítrekað bannað starfsfólki ASÍ að taka niður verð í versluninni.

Bónus gagnrýnir vinnubrögð ASÍ varðandi verðkönnunina. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að ítrekað hafi verið gerðar athugasemdir við vinnubrögð ASÍ, meðal annars vegna þess að ekki séu teknir ódýrustu kostir í hverjum vöruflokki hjá Bónus.

„Dæmi um misræmi í vinnubrögðum ASÍ eru ódýrustu bananarnir sem kosta 198 krónur kílóið í verslunum Bónus, en eru sagðir kosta 257 krónur," segir í tilkynningunni. Leiðrétting á þessari einu rangfærslu geri Bónus ódýrustu verslunina í könnuninni.

ASÍ svara gagnrýninni fullum hálsi og segir að verðlagseftirlitið vinni eftir ákveðnum verklagsreglum. Þessi verðkönnun hafi verið framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum og skráð niður það verð sem neytendum stóð til boða á þeim tímapunkti. Það sé venjan við slíkar kannanir.

„Nokkuð ber á því að afslættir séu ekki sýnilegir og eru þeir þar af leiðandi ekki teknir með," segir í yfirlýsingu frá ASÍ.

sunna@frettabladid.is

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×