Innlent

LÍN stefnir hæstaréttardómara

Viðar Már Matthíasson
Viðar Már Matthíasson
Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur stefnt Viðari Má Matthíassyni hæstaréttardómara fyrir dóm vegna ábyrgðar sem hann gekkst í fyrir tæpum þremur áratugum.

„Lánasjóðurinn er að krefjast ógildingar á úrskurði málskotsnefndar, sem úrskurðaði að ábyrgð sem ég hafði gengist í á námsláni árið 1982 væri úr gildi fallin. Það eru nú öll ósköpin,“ segir Viðar, sem kveður málið ekki mikið að vöxtum en hann skilji þó að það veki athygli, enda sárasjaldan sem hæstaréttardómarar eru dregnir fyrir dóm.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins snýst deilan um tuttugu ára hámarksuppgreiðslutíma af láninu, eins og áskilið var í öllum samningum um svonefnd V-námslán LÍN, sem voru þau fyrstu sem veitt voru. Þá greiddi lánþegi af láninu í tuttugu ár en að því loknu féllu eftirstöðvarnar niður.

Í þessu tilviki hafði lánþeginn fengið undanþágur frá greiðslum vegna aðstæðna, og var auk þess með ólíkar tegundir af lánum sem hann greiddi af samtímis og allt þetta flækti málið töluvert. Ágreiningur er nú um hvort ábyrgð Viðars hafi fallið úr gildi þegar tuttugu ára hámarksuppgreiðslutíminn var liðinn.

Málið er talið geta verið fordæmisgefandi að einhverju leyti. Það verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn kemur. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×