Innlent

Flugmenn boða strax aðgerðir

Flugvél frá Icelandair Fella þurfti niður næstum 20 ferðir í júní vegna aðgerða flugmanna.
Flugvél frá Icelandair Fella þurfti niður næstum 20 ferðir í júní vegna aðgerða flugmanna.
Síðdegis í gær slitnaði upp úr viðræðum flugmanna og Icelandair. Flugmenn félagsins hafa boðað ótímabundið yfirvinnubann á þriðjudaginn kemur, hafi samningar ekki tekist þá.

Samtök ferðaþjónustunnar segja það vekja furðu að flugmenn boði nú yfirvinnubann á nýjan leik.

„Það er háönn í greininni og það eru allir að leggjast á eitt við að halda uppi umferð um Suðurland vegna náttúruhamfara. Menn trúa ekki að flugmönnum sé alvara,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Flugmenn lýsa hins vegar fyrir sitt leyti furðu sinni á yfirlýsingu Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þeir segjast ekki vera að fara í verkfall heldur yfirvinnubann, sem þýði að þeir hlýða ekki kalli ef reynt er að fá þá í vinnu á frívöktum.

Guðjón Arngrímsson, fjölmiðlafulltrúi Icelandair, segist vonast til þess að menn taki upp þráðinn og nái saman áður en yfirvinnubannið hefst. „En ef af aðgerðum verður er ljóst að það mun trufla flug.“

Flugmenn felldu í atkvæðagreiðslu kjarasamning, sem gerður var í lok júní eftir langar og harðar deilur. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×