Fastir pennar

Forseti Íslands og stjórnarskráin

Þorvaldur Gylfason skrifar
Rannsóknarnefnd Alþingis mælti með endurskoðun stjórnarskrárinnar vegna hrunsins með þeim rökum, að veik stjórnskipun er hluti vandans, sem keyrði Ísland í kaf. Þar ber kannski hæst óljós valdmörk og veikt mótvægi (e. checks and balances). Þessir veikleikar gerðu ríkisstjórninni kleift að fara sínu fram án nægs aðhalds og eftirlits af hálfu Alþingis og dómstóla. Þetta skiptir miklu m.a. vegna þess, að hrunið hér 2008 er mesta fjármálahrun, sem mælzt hefur á viðtekna kvarða frá því mælingar hófust eins og ég lýsti á þessum stað fyrir viku.

Falskar andstæðurSumir líta svo á, að val standi milli þingræðis af því tagi, sem við höfum búið við og sumir kalla flokksræði, og forsetaræðis, sem má skoða sem samheiti ýmissa hugmynda um, að handhafar framkvæmdarvalds séu kjörnir beint af þjóðinni án atbeina Alþingis eða þjóðkjörnum forseta Íslands séu falin ný verkefni. Ég lít málið öðrum augum. Þingræði og forsetaræði eru í mínum huga falskar andstæður. Ég tel, að hægt væri að sætta þessi sjónarmið og fara bil beggja í nýrri stjórnskipan, sem nýtir kosti beggja aðferða. Hugsunin er þessi. Ráðherravaldið hefur seilzt of langt innan þingræðisskipulags okkar. Skýrari valdmörk og sterkara mótvægi er hægt að tryggja með því að fækka verkefnum ráðherravaldsins til að draga úr ofurvaldi flokksforingja og reisa trausta eldveggi milli ólíkra valdþátta.

Ný verkaskiptingStjórnlagaráð og stjórnlaganefnd hafa þegar kynnt tillögur um að færa valdið til að skipa dómara og ríkissaksóknara frá innanríkisráðherra til forseta Íslands. Í áfangaskjali ráðsins stendur nú: „[Forseti Íslands] skipar dómara eða setur þá í embætti og veitir þeim lausn [án tillögu ráðherra]. Tryggt skal með lögum að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara. Lögbundin nefnd skal meta hæfi umsækjenda. Velji forseti ekki í embætti dómara einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis.“ Hornklofarnir sýna, að eftir er að ákveða, hvort það á að vera forseti Íslands, sem skipar dómara, og hvort hann gerir það án tillögu ráðherra eða ekki. Tillöguna um, að forseta Íslands sé fært valdið til að skipa dómara og ríkissaksóknara án tillögu ráðherra eða ekki, má skoða sem fyrsta skrefið af mörgum í átt að sama valddreifingarmarki. Önnur skref að settu marki væru ákvæði sem þessi:



- Forseti Íslands skipar forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem fylgist með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinnur að hagrannsóknum og er ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum samkvæmt lögum.

- Forseti Íslands skipar forstjóra Hagstofu Íslands, sem vinnur að opinberri hagskýrslugerð samkvæmt lögum.

- Forseti Íslands skipar forstjóra Ríkisendurskoðunar, sem endurskoðar ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins samkvæmt lögum.

- Forseti Íslands skipar forstjóra Fjármálaeftirlits, sem hefur opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og fylgist með að hún sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og samþykktir sem gilda um starfsemina.

- Forseti Íslands skipar forstjóra Samkeppniseftirlits, sem miðar að því að efla virka samkeppni í viðskiptum samkvæmt lögum.

- Forseti Íslands skipar umboðsmann Alþingis (eða almennings) til að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga samkvæmt lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum.

- Forseti Íslands skipar forstjóra Seðlabanka Íslands, sem ber samkvæmt lögum að stuðla að stöðugu verðlagi og framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.



Forseti Finnlands skipar dómara og seðlabankastjóra þar í landi skv. tillögu ríkisstjórnar.

Tvær flugur í einu höggiMeð slíkum ákvæðum væri í fyrsta lagi tekið af framkvæmdarvaldinu tæki til að raða flokkshestum í mikilvæg forustustörf í stjórnsýslunni svo sem ærin brögð hafa verið að til þessa dags. Í annan stað væri mikilvægum stofnunum ríkisins veitt vernd í stjórnarskrá og þá um leið girt fyrir hættuna á, að Alþingi leggi þessar stofnanir niður með lögum svo sem gert var við Þjóðhagsstofnun fyrir fáeinum árum með skaðvænum afleiðingum. Hér er gert ráð fyrir endurreisn Þjóðhagsstofnunar skv. ákvæði í stjórnarskrá. Stofnanirnar, sem ég hef tilgreint, þurfa með almannahag að leiðarljósi að vera sjálfstæðar gagnvart framkvæmdarvaldinu og óháðar stjórnmálahagsmunum. Eftir þessari tillögu gæti forseti Íslands ekki skipað forstjóra þessara stofnana upp á sitt eindæmi, heldur hefði hann sér við hlið lögbundna nefnd, helzt með erlendum sérfræðingum eftir atvikum, svo sem tíðkast við ráðningu háskólaprófessora og eins og segir í áfangaskjalinu um skipun dómara. Forseti Íslands þyrfti því að sæta aðhaldi og eftirliti lögbundinnar nefndar sérfræðinga og Alþingis, og forsetinn þyrfti auk þess að axla ábyrgð á þessum embættisverkum sínum eins og öðrum skv. stjórnarskrá eða lögum. Þó má ekki færa svo mikil völd til forsetans, að flokkarnir geti gert forsetakosningar flokkspólitískar og innlimað forsetavaldið í flokksvaldið. Þeir munu halda áfram að reyna.






×