Til hamingju með Hörpu Ólafur Stephensen skrifar 6. maí 2011 07:00 Full ástæða er til að óska Íslendingum til hamingju með tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, þar sem fyrstu sinfóníutónleikarnir voru haldnir í fyrrakvöld. Loksins hefur Ísland eignazt tónlistarhús sem stenzt samjöfnuð við mörg þau beztu í nágrannalöndum okkar. Loksins hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands fengið samastað sem henni hæfir og leyfir henni að hljóma eins og hún á skilið. Loksins fær Íslenzka óperan sal þar sem von er til að stórar sýningar standi undir sér. Opnun Hörpu markar margvísleg tímamót í íslenzku menningar- og þjóðlífi. Tónlistin hefur ekki eingöngu eignazt nýjan samastað, heldur mun Harpa efla miðborg Reykjavíkur, lyfta hafnarsvæðinu og verða aðdráttarafl fyrir ferðamenn og ráðstefnugesti. Húsið sjálft er listaverk og verður umgjörð flutnings margra fleiri meistaraverka. Tilurð Hörpu mun leiða hingað alþjóðlega menningarstrauma í enn ríkari mæli. Opnun hússins er risavaxin jákvæð frétt, ein sú stærsta og gleðilegasta eftir hrun. Það var fullkomlega viðeigandi að kalla fyrstu tónleika Sinfóníunnar í Hörpu óð til gleðinnar, því að sú tilfinning var allsráðandi hjá tónleikagestum. Harpa er dýrt hús. Lagt var upp með að reisa það í samstarfi einkaaðila, ríkis og borgar en bankahrunið setti stórt strik í reikninginn þegar Portus, undir forystu Björgólfs Guðmundssonar, þraut örendið. Óvíst er að nokkurn tímann hefði verið ráðizt í byggingu hússins ef skattgreiðendur hefðu einir átt að standa undir byggingu og rekstri þess. Það varð þó niðurstaðan, þótt reyndar verði að hafa í huga að kröfuhafar Landsbankans taka líka á sig talsverðar byrðar vegna afskrifaðra lána til framkvæmdarinnar. Fáir sem hafa skoðað húsið og notið tónlistarflutnings þar geta þó efazt um að það var rétt ákvörðun hjá ríki og borg að ljúka við byggingu Hörpu, þótt hún væri umdeild á sínum tíma. Húsið var hálfbyggt og hefði orðið skelfilegt lýti á miðborginni ef framkvæmdum hefði ekki verið haldið áfram. Það hefði orðið miklu dýrara að taka þráðinn upp síðar til að ljúka verkinu. Niðurrif hússins hefði falið í sér gífurlega sóun á verðmætum. Harpa er ekki snobbhús fyrir fámennan hóp unnenda klassískrar tónlistar, eins og stundum hefur verið haldið fram. Sá hópur fer reyndar stækkandi, eins og sést á því að kortagestum Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur fjölgað verulega eftir hrun. Í húsinu verður gífurlega fjölbreytt dagskrá með alls konar tónlist. Þegar er búið að bóka tónleika ýmissa heimsfrægra listamanna; ekki síður rokkara, djassara og annarra dægurtónlistarmanna en flytjenda sígildrar tónlistar. Harpa verður líka opið hús, þar sem almenningur getur farið á veitingastaði, heimsótt verzlanir, farið á sýningar og notið byggingarlistar í hæsta gæðaflokki. Íslendingar hafa ástæðu til að vera stoltir og glaðir yfir þessari nýju sameign þjóðarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Full ástæða er til að óska Íslendingum til hamingju með tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, þar sem fyrstu sinfóníutónleikarnir voru haldnir í fyrrakvöld. Loksins hefur Ísland eignazt tónlistarhús sem stenzt samjöfnuð við mörg þau beztu í nágrannalöndum okkar. Loksins hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands fengið samastað sem henni hæfir og leyfir henni að hljóma eins og hún á skilið. Loksins fær Íslenzka óperan sal þar sem von er til að stórar sýningar standi undir sér. Opnun Hörpu markar margvísleg tímamót í íslenzku menningar- og þjóðlífi. Tónlistin hefur ekki eingöngu eignazt nýjan samastað, heldur mun Harpa efla miðborg Reykjavíkur, lyfta hafnarsvæðinu og verða aðdráttarafl fyrir ferðamenn og ráðstefnugesti. Húsið sjálft er listaverk og verður umgjörð flutnings margra fleiri meistaraverka. Tilurð Hörpu mun leiða hingað alþjóðlega menningarstrauma í enn ríkari mæli. Opnun hússins er risavaxin jákvæð frétt, ein sú stærsta og gleðilegasta eftir hrun. Það var fullkomlega viðeigandi að kalla fyrstu tónleika Sinfóníunnar í Hörpu óð til gleðinnar, því að sú tilfinning var allsráðandi hjá tónleikagestum. Harpa er dýrt hús. Lagt var upp með að reisa það í samstarfi einkaaðila, ríkis og borgar en bankahrunið setti stórt strik í reikninginn þegar Portus, undir forystu Björgólfs Guðmundssonar, þraut örendið. Óvíst er að nokkurn tímann hefði verið ráðizt í byggingu hússins ef skattgreiðendur hefðu einir átt að standa undir byggingu og rekstri þess. Það varð þó niðurstaðan, þótt reyndar verði að hafa í huga að kröfuhafar Landsbankans taka líka á sig talsverðar byrðar vegna afskrifaðra lána til framkvæmdarinnar. Fáir sem hafa skoðað húsið og notið tónlistarflutnings þar geta þó efazt um að það var rétt ákvörðun hjá ríki og borg að ljúka við byggingu Hörpu, þótt hún væri umdeild á sínum tíma. Húsið var hálfbyggt og hefði orðið skelfilegt lýti á miðborginni ef framkvæmdum hefði ekki verið haldið áfram. Það hefði orðið miklu dýrara að taka þráðinn upp síðar til að ljúka verkinu. Niðurrif hússins hefði falið í sér gífurlega sóun á verðmætum. Harpa er ekki snobbhús fyrir fámennan hóp unnenda klassískrar tónlistar, eins og stundum hefur verið haldið fram. Sá hópur fer reyndar stækkandi, eins og sést á því að kortagestum Sinfóníuhljómsveitarinnar hefur fjölgað verulega eftir hrun. Í húsinu verður gífurlega fjölbreytt dagskrá með alls konar tónlist. Þegar er búið að bóka tónleika ýmissa heimsfrægra listamanna; ekki síður rokkara, djassara og annarra dægurtónlistarmanna en flytjenda sígildrar tónlistar. Harpa verður líka opið hús, þar sem almenningur getur farið á veitingastaði, heimsótt verzlanir, farið á sýningar og notið byggingarlistar í hæsta gæðaflokki. Íslendingar hafa ástæðu til að vera stoltir og glaðir yfir þessari nýju sameign þjóðarinnar.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun