Handbolti

Ólafur: Þetta var fullkomið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
 Kristján Arason gerði FH að meisturum árið 1992 og aftur nú, nítján árum síðar.
Kristján Arason gerði FH að meisturum árið 1992 og aftur nú, nítján árum síðar. Fréttablaðið/HAG
Stórskyttan unga í liði FH, Ólafur Guðmundsson, fór mikinn í liði FH í gær og ljóst var að hann vildi klára dæmið á heimavelli. Ólafur var að leika sinn síðasta leik fyrir FH í bili en hann spilaði sem lánsmaður frá danska liðinu AGK, sem keypti hann síðasta sumar.

„Það kom ekki til greina að fara aftur til Akureyrar. Við vildum vinna þetta í Krikanum enda helmingi sætara þannig. Þetta kvöld var fullkomið. Ég hefði ekki getað ímyndað mér þetta betra," sagði Ólafur og brosti breitt.

„Baráttan og liðsheildin var meiri hjá okkur. Við vildum þetta meira en Akureyringarnir. Við lögðum ansi mikið á okkur til þess að klára dæmið. Löngunin var gríðarleg hjá okkur og við uppskárum eftir því. Ég er búinn að skila öllu sem ég get til félagsins og það er frábært að skilja á þennan hátt."

Logi Geirsson kom heim fyrir tímabilið og átti að vera lykillinn að meistaraliði FH. Þrálát meiðsli hafa haldið Loga mikið utan vallar en hann hefur gefið það sem hann getur til liðsins og honum fannst ljúft að uppskera í gær.

„Ég sagði fyrir tímabilið að við yrðum Íslandsmeistarar. Ég stóð við það en þetta var erfitt. Ég skipti mér inn á í dag því mér fannst ég geta hjálpað liðinu. Það gekk og þessir strákar eru frábærir. Þetta er mikill gleðidagur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×