Handbolti

Guðmundur Árni: Við fundum okkar leik aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld. Mynd/Vilhelm
Úr leik liðanna í kvöld. Mynd/Vilhelm
Guðmundur Árni Ólafsson skoraði 11 mörk úr 14 skotum fyrir Hauka í kvöld í öruggum fimm marka sigri liðsins á Fram en sjö marka hans komu á rúmlega tuttug mínútna kafla í kringum hálfleikinn.

„Það hentar mér vel að við séum farnir að keyra upp hraðann. Fyrir þennan leik vorum við að horfa á gömul myndbönd þannig að við fórum að spila sama bolta og við vorum að gera áður. Við fundum okkar leik aftur og það skilaði góðum árangri í dag," sagði Guðmundur Árni kátur.

„Vonandi höldum við því áfram og fáum áfram hraðaupphlaupin því þar kann ég vel við mig allavega," sagði Guðmundur Árni.

„Þetta var virkilega mikilvægur sigur. Við vorum í fimmta sæti fyrir þennan leik og við ætlum okkur að komast í úrslitakeppnina. Við töpuðum síðasta leik á móti HK og vorum búnir að gera jafntefli við Selfoss og Aftureldingu í leikjunum á undan honum. Við þurftum því á sigri að halda til þess að halda okkur í baráttunni um fjórða sætið," sagði Guðmundur.

„Ég fann það að okkur leið vel inn á vellinum og stemmningin kom innan frá. Það er það sem við þurfum að gera, við þurfum að finna kraftinn inn í okkur og koma með útgeisluna því þá gengur þetta vel hjá okkur. Við þurfum líka að halda áfram að keyra upp hraðann og sýna gamla Haukaleikinn sem við erum svo sterkir í," sagði Guðmundur Árni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×