Sport

Besti skotfimikappi landsins ekki með veiðileyfi

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson, 25 ára skotfimikappi úr Skotfélagi Reykjavíkur vinnur markvisst að því að tryggja sér þátttökurétt á ólympíuleikunum í London á næsta ári.

Ásgeir er svo til óstöðvandi þessa dagana, hann vann til tvennra silfuverðlauna á sterku alþjóðlegu móti í Hollandi á dögunum, inter Shoot og sigraði í loftskammbyssu á landsmótinu sem fram fór um helgina.

Ásgeir æfir allt að 30 tíma á viku. „Það eru fimm eða sex mót eftir sem gefa sæti á ólympíuleikana. Ég þarf að komast í 8 manna úrslit á svo sterku móti til að ná takmarkinu og er bara mjög bjartsýnn," segir Ásgeir.

2500 manns stunda skotfimi hér á landi. Af þeim eru um 120 manns sem keppa af alvöru í öllum greinum íþróttarinnar.

Hundrað manns komast inn á heimslistann í skotfimi - Ásgeir komst inn á listann fyrir tveimur árum og er nú í sæti númer 50.

Ásgeir segir ódýrt að stunda íþróttina. „Það er aðallega upphafskostnaðurinn sem er hár. Byssan kostar á bilinu tvö til þrjú hundruð þúsund krónur en eftir það er þetta mjög ódýrt."

Þó að Ásgeir sé góð skytta stundar hann ekki veiðar af neinu tagi. „Ég hef t.d. aldrei farið á rjúpnaveiðar og er ekki einu sinni með veiðileyfi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×