Sport

Brutust inn og hreinsuðu út úr verðlaunaskápnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Rogers.
Phil Rogers. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ástralski sundmaðurinn Phil Rogers átti flottan feril og vann nokkur eftirsótt verðlaun í sundinu. Hann lenti hinsvegar í því á dögunum að það var brotist inn til hans og hreinsað út úr verðlaunaskápnum.

Þjófarnir fóru inn um miðjan dag hjá hinum fertuga Phil Rogers og stálu flestum af merkilegustu verðlaunapeningum hans.

Rogers var öflugur bringusundsmaður og átti verðlaun frá Ólympíuleikum, Samveldisleikum og Heimsmeistaramótum auk ígildi fálkaorðunnar í Ástralíu sem ber heitið "Order of Australia".

Þjófarnir náðu meðal annars í bronsverðlaun hans frá Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 og tvö gull frá Heimsmeistaramóti í Hong Kong árið 1999.

„Þessi verðlaun hafa kannski ekki mikið peningalegt gildi en þau eru ómetanleg fyrir mig enda eru þetta laun mín fyrir mikla vinnu í tuttugu ár," sagði Phil Rogers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×