Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Angóla 24-28

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
Mynd/Pjetur
Íslenska kvennalandsliðið náði sér aldrei á strik gegn Afríkumeistaraliði Angóla í öðrum leiknum á heimsmeistaramótinu í handknattlek í Brasilíu í kvöld. Flest fór úrskeiðis hjá liðinu. Varnarleikurinn var slakur og leikmenn gerðu gríðarlega mörg mistök í sóknarleiknum. Angóla sigraði 28-24 og er með pálmann í höndunum um að komast í 16-liða úrslit en staða Íslands versnaði til muna því Angóla er með betri stöðu í innbyrðisviðureigninni. Og það gæti reynst dýrkeypt þegar uppi er staðið. 

Á um fimm mínútna kafla um miðja fyrri hálfleik hrundi leikur íslenska liðsins – og Angóla skoraði fjögur mörk í röð og komst í 9-7. Ísland náði aldrei að komast yfir eftir það og eltingaleikurinn stóð yfir til leiksloka.

Allt of margir leikmenn Íslands léku undir getu. Það sjálfstraust sem geislaði af liðinu gegn Svartfjallalandi var ekki til staðar. Leikmenn tóku ekki skot úr ákjósanlegum færum og það læðist að manni sá grunur að óttinn við að tapa leiknum hafi verið sterkari en sigurviljinn.

„Við vorum bara lélegar. Svo einfalt er það,“  sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir eftir leikinn við Vísi. „Einstaklingsframtakið var ráðandi, liðsheildina vantaði, og við vorum bara alltaf á eftir í öllu,“  sagði Anna og leyndi ekki vonbrigðum sínum.  Það er samt enn von um að komast áfram og við munum halda áfram að reyna ná markmiðinu,“  bætti hún við.

Það var fátt jákvætt við leik Íslands í gær. Dagný Skúladóttir komst ágætlega frá sínu, skoraði 5 mörk úr 5 tilraunum. Stella Sigurðardóttir átti nokkrar rispur í sókninni og Guðný Jenný Ásmundsdóttir markvörður varði 16 skot – sem er alls ekki slæmt. Mistök í sóknarleiknum voru gríðarlega mörg. Alls 11 slík í fyrri hálfleik og það er bara of mikið í leik sem þessum.

Rangar ákvarðanir voru teknar hvað eftir annað í sóknarleiknum og sem dæmi má nefna að Ísland náði aðeins að vinna 2 mínútna kafla með einu marki á meðan Angóla var aðeins með 4 útileikmenn.

Hægri vængur íslenska liðsins hefur ekki náð að sýna styrk sinn í fyrstu tveimur leikjunum. Rut Jónsdóttir og Birna Berg Haraldsdóttir eru ekki nógu ógnandi. Það vantar bara að þær skjóti úr þeim færum sem þær fá. Hraðaupphlaupin eru heldur ekki að skila sér. Þar vantar mikið upp á.

Spennufallið var mikið hjá Íslandi. Staðan eftir tapleikinn í kvöld er allt önnur en í gær þar sem Ísland náði frábærum úrslitum í 22-21 sigri gegn Svartfjallalandi. Svo gæti farið að sá sigur myndi ekki skila miklu því Angóla er með 4 stig og er búið að vinna bæði Ísland og Kína. Möguleikar Íslands eru því minni en áður að komast í 16-liða úrslit. Sigur gegn Kína er algjörlega nauðsynlegur en það dugir ekki til. Ísland þarf að ná stigi til viðbótar gegn Noregi eða Þýskalandi. Risaverkefni þar á ferðinni.

Hér að neðan má sjá framvindu leiksins, tölfræði, leikmannahópa liðanna auk textalýsingar frá blaðamanni Vísis á vellinum.


Tengdar fréttir

Anna Úrsúla: Bara einhver vitlaus hjátrú hjá mér

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir getur ekki horft á liðsfélagana taka vítaköstin á Heimsmeistaramótinu í handbolta kvenna í Brasilíu. Línumaðurinn sterki snýr alltaf baki í vítaskyttuna og vonar það besta.

HM 2011: Við gerðum ekki það sem lagt var upp með

„Það er of erfitt að ráða í þessa leikmenn sem við vorum að mæta. Það er ekki oft sem við spilum gegn liðum sem leika svona handbolta. Við gerðum ekki það lagt var upp með og þær skoruðu nánast að vild,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir eftir 28-24 tapleikinn gegn Angóla.

HM 2011: Myndasyrpa frá tapleiknum gegn Angóla

Íslenska kvennalandsliðið tapaði gegn Angóla, 28-24, á heimsmeistaramótinu í handbolta í Brasilíu í gær. Leikmenn Íslands leyndu ekki vonbrigðum sínum með úrslitin. Angóla í betri stöðu en Ísland þegar kemur að sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×