Fótbolti

Tveir menn handteknir í Veigars-málinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson
Veigar Páll Gunnarsson Mynd/Nordic Photos/Getty
Kaup Vålerenga á Veigari Páli Gunnarssyni frá Stabæk ætla að draga dilk á eftir sér því tveir menn voru handteknir í morgun og yfirheyrðir af norsku lögreglunni í tenglum við málið sem er nú komið inn á borð efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í Noregi.

Það kemur fram í norskum fjölmiðlum að Truls Haakonsen, íþróttastjóri Vålerenga og Inge André Olsen, íþróttastjóri Stabæk hafi verið handteknir í morgun grunaðir um fjársvik. Stabæk og Vålerenga hafa þegar fengið sekt vegna málsins en þau sviku franska liðið Nancy um rúmar 40 milljónir íslenskra króna með því að fela hluta kaupupphæðarinnar.

Félögin létu það líta svo út að Veigar Páll hafi aðeins kostað eina milljón norskra króna en Vålerenga hafi á sama tíma borgað Stabæk fjórar milljónir norskra króna fyrir forkaupsrétt á fimmtán ára leikmenni.

Stabæk hafði samið við Nancy þegar Veigar Páll kom aftur til liðsins frá Frakklandi að franska liðið fengi helminginn af söluverðinu yrði leikmaðurinn seldur. Með því að gefa það upp að Veigar hafi aðeins verið seldur á eina milljón í stað fimm milljóna þá slapp Stabæk við að borga Nancy tvær milljónir norskra króna. Málið komst hinsvegar upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×