Það var lítil spenna í mánudagsleik NFL-deildarinnar í nótt þegar Tom Brady og félagar í New England Patriots völtuðu yfir Kansas City Chiefs, 34-3.
Brady og innherjinn Tob Gronkowski fóru báðir mikinn en Gronkowski greip tvær sendingar frá Brady sem skiluðu snertimarki.
Chiefs tefldi fram Tyler Palko sem leikstjórnanda í nótt en þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur í deildinni og hann virðist ekki alveg vera tilbúinn fyrir stóra sviðið. Palko kastaði þrem boltum frá sér í leiknum.
Patriots er nú búið að vinna sjö leiki en tapa þremur og situr í efsta sæti síns riðils. Þó svo varnarleikur liðsins hafi verið hörmulegur lengstum í vetur eru menn farnir að fá trú á því á nýjan leik að liðið geti gert usla í úrslitakeppninni enda með einn besta leikstjórnanda í sögu NFL-deildarinnar.
Auðveldur sigur hjá Patriots í mánudagsleiknum
