Formúla 1

Button vann í Ungverjalandi - Vettel jók forskotið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jenson Button og Sebastian Vettel.
Jenson Button og Sebastian Vettel. Mynd/AP
Bretinn Jenson Button á McLaren-bíl vann ungverska kappaksturinn í formúlu eitt sem fram fór á Hungaroring-brautinni í dag. Þjóðverjinn Sebastian Vettel, sem er langefstur í baráttunni um heimsbikarinn, varð annar og jók því forskot sitt á Mark Webber sem endaði í 5. sæti í dag.

Jenson Button var að vinna sinn annan kappakstur á tímabilinu en hann vann einnig kanadíska kappaksturinn á dögunum. Button hafði ekki náð að klára undanfarnar tvær keppnir og sigurinn var því langþráður fyrir hann en þetta var tvöhundraðasti kappakasturinn hans á ferlinum.

Þetta er ellefti sigur Button á ferlinum en hann vann einmitt sinn fyrsta sigur í Ungverjalandi árið 2006.

Sebastian Vettel hjá Red Bull er nú með 85 stiga forskot á Mark Webber í keppni ökumanna en nú munar aðeins fjórum stigum á mönnunum í 2. til 4. sæti.

Spánverjinn Fernando Alonso hjá Ferrari var þriðji og komst því á pall fjórða kappaksturinn í röð. Alonso eru nú aðeins einu stigi á eftir Lewis Hamilton í keppni ökumanna en Lewis hélt naumlega þriðja sætinu í stigakeppninni.

Lewis Hamilton var lengi í forystunni en gerði afdrifarík mistök og fékk að auki á sig akstursvíti. Eftir það átti hann ekki möguleika lengur á sigri og endaði að lokum í fjórða sæti eftir að hafa komist upp fyrir Mark Webber.

Lokastaðan í ungverska kappakstrinum:

1. J Button - McLaren

2. S Vettel - Red Bull

3, F Alonso - Ferrari

4. L Hamilton - McLaren

5. M Webber - Red Bull

6. F Massa - Ferrari

7. P Di Resta - Force India

8. S Buemi - Toro Rosso

9. N Rosberg - Mercedes

10. J Alguersuari - Toro Rosso

Staðan í keppni ökumanna:

1. S Vettel - Red Bull - 234 stig

2. M Webber - Red Bull - 149

3. L Hamilton - McLaren - 146

4. F Alonso - Ferrari - 145

5. J Button - McLaren - 134

6. F Massa - Ferrari - 70

7. N Rosberg - Mercedes - 48

8. N Heidfeld - Renault - 34

9. V Petrov - Renault - 32

10. M Schumacher - Mercedes - 32






Fleiri fréttir

Sjá meira


×