Fótbolti

Ísland upp um eitt sæti á styrkleikalista FIFA

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Ólafur Jóhannesson þjálfari íslenska A-landsliðsins í fótbolta.
Ólafur Jóhannesson þjálfari íslenska A-landsliðsins í fótbolta. Mynd/Anton Brink
Ísland og Færeyjar hækka á nýjasta styrkleikalista FIFA sem birtur var í morgun. Ísland er nú í sæti númer 121 en landsliðið náði sögulegri lægð á listanum í síðasta mánuði þegar liðið var í 122. sæti. Grenada, Tæland og Liechtenstein eru í sætunum fyrir ofan.

Færeyingar hækka upp um tvö sæti og eru númer 112 ásamt Walesverjum sem eru söguleg tíðindi. Listinn sem birtur var í morgun ræður til um niðurröðun liða þegar dregið verður í undankeppni HM 2014 á laugardag.

Færeyingar komast nú í fyrsta sinn upp úr sjötta og neðsta styrkleikaflokki Evrópuþjóða á kostnað Walesverja sem verða í neðsta flokki ásamt Íslandi, Liechtenstein, Kazakhstan, Luxembourg, Möltu, Andorra og San Marino.

Færeyjar eru 0.07 stigum fyrir ofan Wales í stigakerfi FIFA listans, þökk sé færeyskum stjórnmálafræðinema sem benti á villu í stigaútreikningum listans í síðasta mánuði.

Spánverjar eru sem fyrr efstir, Holland í öðru og Þýskaland í þriðja. Nýkrýndir Copa America meistarar Úrúgvæ hækka upp um 13 sæti í það fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×