Fótbolti

Falcao tryggði Porto sigur í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radamel Falcao fagnar sigurmarki sínu.
Radamel Falcao fagnar sigurmarki sínu. Mynd/AP
Kólumbíumaðurinn Falcao kórónaði sögulegt tímabil sitt í Evrópudeildinni með því að tryggja Porto-liðinu Evrópumeistaratitilinn í úrslitaleiknum á móti Braga í Dublin í kvöld. Falcao skoraði eina mark leiksins mínútu fyrir hálfleik en þetta var 17. mark hans í 14 leikjum í Evrópudeildinni á þessari leiktíð.

André Villas-Boas, þjálfari Porto, gerði félagið þar með að Evrópumeisturum á sínu fyrsta heila ári með liðið en hann varð um leið yngsti þjálfarinn sem vinnur Evrópukeppni á vegum UEFA.  Villas-Boas er 33 ára og 213 daga gamall og bætti þarna met Gianluca Vialli frá því að Vialli var spilandi stjóri hjá Chelsea árið 1998. Vialli var 33 ára og 308 daga gamall.

Radamel Falcao skoraði sigurmarkið sitt með glæsilegum skalla á 44. mínútu eftir flotta fyrirgjöf frá Freddy Guarin. Þetta var sjöunda skallamark Falcao í Evrópudeildinni á tímabilinu.

Porto á möguleika á því að vinna þrennuna en liðið spilar til úrslita í portúgalska bikarnum um næstu helgi. Villas-Boas færi þá í fótspor Jose Mourinho sem vann þrennuna með Porto árið 2003 og þar á meðal var Evrópukeppni félagsliða sem er forveri Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×