Fótbolti

Sautján ára kvennalandslið Íslands: Sex leikir, sex sigrar og 37 mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði í öllum leikjunum í milliriðlinum.
Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði í öllum leikjunum í milliriðlinum. Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Íslenska 17 ára landsliðið í fótbolta hélt sigurgöngu sinni áfram í undankeppni EM með því að vinna 4-1 sigur á Svíum í lokaleik sínum í millirliði sínum í Póllandi í dag. Stelpurnar höfðu áður tryggt sér sæti úrslitakeppninni með sigri á Englandi og Póllandi í fyrstu tveimur leikjunum.

Sigríður Lára Garðarsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir skoruðu í fyrri hálfleik og fyrirliðinn Aldís Kara Lúðvíksdóttir innsiglaði sigurinn með tveimur mörkum undir lokin. 17 ára landsliðið vann þar með alla sex leiki sína í undankeppni EM og skoraði í þeim 37 mörk gegn aðeins tveimur mörkum mótherjanna.

Stelpurnar munu leika gegn Spánverjum í undanúrslitum EM, 28. júlí næstkomandi. Úrslitakeppnin fer fram í Nyon í Sviss, nánar tiltekið á Colovray vellinum sem er staðsettur við höfuðstöðvar UEFA.  Aðeins fjórar þjóðir leika í úrslitakeppninni og mætast, eins og áður sagði, Ísland og Spánn, í öðrum undanúrslitaleiknum en í hinum mætast Frakkar og sigurvegarar úr riðli 3 þar sem leika: Þýskaland, Finnland, Rússland og gestgjafarnir í Danmörku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×