Fótbolti

Frábær sigur U-21 árs liðsins gegn Englandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna sigurmarki Hólmars Arnar í kvöld.
Íslensku strákarnir fagna sigurmarki Hólmars Arnar í kvöld.
Íslenska U-21 árs liðið í knattspyrnu sýndi enn eina ferðina í kvöld hvers það er megnugt. Þá gerðu strákarnir sér lítið fyrir og lögðu England á útivelli, 1-2.

Enska liðið byrjaði leikinn mikið betur. Réði spilinu á meðan íslenska liðinu gekk illa að halda boltanum.

Eftir aðeins þrettán mínútna leik kom Nathan Delfouneso, leikmaður Burnley, enska liðinu yfir. Hann fékk þá magnaða stungusendingu sem hann kláraði örugglega.

Íslenska liðið komst betur inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og fór að gera sig líklegt.

Þrem mínútum fyrir leikhlé náðu strákarnir að jafna. Alfreð Finnbogason átti þá frábæra stungusendingu á Arnór Smárason og hann kláraði færið með stæl. Virkilega vel gert og 1-1 í hálfleik.

Íslensku strákarnir mættu fullir sjálfstrausts til síðari hálfleiks og sóknarleikur liðsins enn markvissari. Sem fyrr var Alfreð Finnbogason arkitektinn að flestum sóknum íslenska liðsins.

25 mínútum fyrir leikslok komst Ísland síðan yfir er Hólmar Örn Eyjólfsson skallaði boltann glæsilega í netið eftir hornspyrnu. Afar smekklega gert.

Korteri fyrir leikslok fékk Björn Bergmann Sigurðarson frábært tækifæri til þess að klára leikinn. Alfreð átti þá enn eina gullsendinguna, Björn einn gegn markmanni en hann lét verja frá sér.

Enska liðið sótti nokkuð stíft undir lokin, þjarmaði að íslenska markinu en baráttuglaðir Íslendingar héldu þeim í skefjum og fögnuðu sætum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×